Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jósúabók 4

Er allt fólkið var komið yfir um Jórdan, mælti Drottinn við Jósúa á þessa leið:

"Veljið yður tólf menn af lýðnum, einn mann af ættkvísl hverri,

og bjóðið þeim og segið: Takið upp tólf steina hér úr Jórdan miðri, á þeim stað, þar sem prestarnir stóðu kyrrir, og berið þá yfir um með yður og setjið þá niður þar sem þér hafið náttstað í nótt."

Þá kallaði Jósúa tólf menn, sem hann kvaddi til af Ísraelsmönnum, einn mann af ættkvísl hverri.

Og Jósúa sagði við þá: "Farið fyrir örk Drottins, Guðs yðar, út í Jórdan miðja, og taki hver yðar einn stein sér á herðar, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna.

Skal þetta vera tákn meðal yðar. Þegar synir yðar spyrja á síðan og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`

þá skuluð þér segja við þá: ,Það, að vatnið í Jórdan stöðvaðist fyrir sáttmálsörk Drottins, þá er hún fór yfir Jórdan. Vatnið í Jórdan stöðvaðist, og þessir steinar skulu vera Ísraelsmönnum til minningar ævinlega."`

Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Jósúa bauð, og tóku tólf steina upp úr Jórdan miðri, eins og Drottinn hafði lagt fyrir Jósúa, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna, og báru þá yfir um með sér, þangað er þeir höfðu náttstað, og settu þá þar niður.

Og Jósúa reisti tólf steina í Jórdan miðri á þeim stað, sem prestarnir, þeir er sáttmálsörkina báru, höfðu staðið, og eru þeir þar enn í dag.

10 En prestarnir, sem örkina báru, stóðu í Jórdan miðri, uns öllu því var lokið, sem Drottinn hafði boðið Jósúa að segja lýðnum samkvæmt öllu því, sem Móse hafði boðið Jósúa. Og lýðurinn flýtti sér að fara yfir um.

11 Og er allur lýðurinn var kominn yfir um, þá fór og örk Drottins yfir um og prestarnir, sem fóru fyrir lýðnum.

12 Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse fóru hertygjaðir fyrir Ísraelsmönnum, eins og Móse hafði fyrir þá lagt.

13 Um fjörutíu þúsundir vígbúinna manna að tölu héldu þeir yfir á Jeríkóvöllu fyrir augliti Drottins til hernaðar.

14 Á þeim degi miklaði Drottinn Jósúa í augsýn alls Ísraels, og þeir óttuðust hann alla ævi hans, eins og þeir höfðu óttast Móse.

15 Drottinn sagði við Jósúa:

16 "Bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, að stíga upp úr Jórdan."

17 Bauð Jósúa þá prestunum og mælti: "Stígið upp úr Jórdan!"

18 Og jafnskjótt sem prestarnir, er báru sáttmálsörk Drottins, voru komnir upp úr Jórdan og þeir höfðu stigið fótum á þurrt land, féll vatnið í Jórdan aftur í farveg sinn, og hún flóði sem áður yfir alla bakka.

19 Lýðurinn kom upp úr Jórdan á tíunda degi hins fyrsta mánaðar og setti búðir sínar í Gilgal, við austurtakmörkin á Jeríkó.

20 Og steinana tólf, er þeir höfðu tekið upp úr Jórdan, reisti Jósúa í Gilgal.

21 Mælti hann þá til Ísraelsmanna á þessa leið: "Þegar synir yðar á síðan spyrja feður sína og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`

22 þá skuluð þér gjöra það kunnugt og segja: ,Ísrael gekk á þurru yfir ána Jórdan,

23 með því að Drottinn Guð yðar þurrkaði vatnið í Jórdan fyrir yður, þar til er þér voruð komnir yfir um, eins og Drottinn Guð yðar gjörði við Sefhafið, er hann þurrkaði það fyrir oss, þar til er vér vorum komnir yfir um,

24 til þess að allar þjóðir á jörðu mættu vita, að hönd Drottins er sterk, svo að þær óttuðust Drottin Guð yðar alla daga."`

Sálmarnir 129-131

129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _

þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.

Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,

en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.

Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.

Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.

Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,

og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.

Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.

Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.

Jesaja 64

64 Ó, að þú sundurrifir himininn og færir ofan, svo að fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu _ eins og þegar eldur kveikir í þurru limi eða þegar eldur kemur vatni til að vella, _ til þess að gjöra óvinum þínum kunnugt nafn þitt, svo að þjóðirnar mættu skjálfa fyrir augliti þínu,

er þú framkvæmdir hræðilega hluti, sem vér gátum eigi vænst eftir. Þú fórst ofan, fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu.

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjöri slíkt fyrir þá, er á hann vona.

Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, _ yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir.

Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur.

Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum.

En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir!

Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Þínar heilögu borgir eru orðnar að eyðimörk. Síon er orðin að eyðimörk, Jerúsalem komin í auðn.

10 Hið heilaga og veglega musteri vort, þar sem feður vorir vegsömuðu þig, er brunnið upp til kaldra kola, og allt það, sem oss var dýrmætt, er orðið að rústum.

11 Hvort fær þú, Drottinn, leitt slíkt hjá þér? Getur þú þagað og þjáð oss svo stórlega?

Matteusarguðspjall 12

12 Um þessar mundir fór Jesús um sáðlönd á hvíldardegi. Lærisveinar hans kenndu hungurs og tóku að tína kornöx og eta.

Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við hann: "Lít á, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyft að gjöra á hvíldardegi."

Hann svaraði þeim: "Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann hungraði og menn hans?

Hann fór inn í Guðs hús, og þeir átu skoðunarbrauðin, sem hvorki hann né menn hans og engir nema prestarnir máttu eta.

Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka?

En ég segi yður: Hér er meira en musterið.

Ef þér hefðuð skilið, hvað felst í orðunum: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,` munduð þér ekki hafa sakfellt saklausa menn.

Því að Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."

Hann fór þaðan og kom í samkundu þeirra.

10 Þar var maður með visna hönd. Og þeir spurðu Jesú: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?" Þeir hugðust kæra hann.

11 Hann svarar þeim: "Nú á einhver yðar eina sauðkind, og hún fellur í gryfju á hvíldardegi. Mundi hann ekki taka hana og draga upp úr?

12 Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri! Það er því leyfilegt að gjöra góðverk á hvíldardegi."

13 Síðan segir hann við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil sem hin.

14 Þá gengu farísearnir út og tóku saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.

15 Þegar Jesús varð þess vís, fór hann þaðan. Margir fylgdu honum, og alla læknaði hann.

16 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.

17 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:

18 Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt.

19 Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum.

20 Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, uns hann hefur leitt réttinn til sigurs.

21 Á nafn hans munu þjóðirnar vona.

22 Þá var færður til hans maður haldinn illum anda, blindur og mállaus. Hann læknaði hann, svo að hinn dumbi gat talað og séð.

23 Allt fólkið varð furðu lostið og sagði: "Hann er þó ekki sonur Davíðs?"

24 Þegar farísear heyrðu það, sögðu þeir: "Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda."

25 En Jesús vissi hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist.

26 Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist?

27 Og ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.

28 En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

29 Eða hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.

30 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

31 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.

32 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.

33 Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð.

34 Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn.

35 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.

36 En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi.

37 Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða."

38 Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: "Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn."

39 Hann svaraði þeim: "Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns.

40 Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.

41 Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

42 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.

43 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki.

44 Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.` Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt,

45 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð."

46 Meðan hann var enn að tala við fólkið kom móðir hans og bræður. Þau stóðu úti og vildu tala við hann.

47 Einhver sagði við hann: "Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig."

48 Jesús svaraði þeim, er við hann mælti: "Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?"

49 Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: "Hér er móðir mín og bræður mínir.

50 Hver sem gjörir vilja föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society