M’Cheyne Bible Reading Plan
16 Síðan kom upp hlutur Jósefs sona, og hlutu þeir land austan frá Jórdan, gegnt Jeríkó, til Jeríkóvatna, eyðimörkina, sem liggur frá Jeríkó upp á Betelfjöll.
2 Frá Betel lágu landamerkin til Lúz, þaðan yfir til lands Arkíta, til Atarót,
3 þaðan ofan á við og í vestur, til lands Jafletíta, að landamærum Bet Hóron neðri og allt til Geser, og þaðan alla leið til sjávar.
4 Synir Jósefs, Manasse og Efraím, fengu óðal sitt.
5 Þetta var land Efraíms sona, eftir ættum þeirra: Takmörk ættaróðals þeirra voru að austan Aterót Addar til Bet Hóron efri,
6 og takmörkin lágu út að hafi. Að norðan var Mikmetat, þaðan beygðu landamerkin af austur á við til Taanat Síló og þar fram hjá austur fyrir Janóha.
7 En frá Janóha lágu þau ofan á við til Atarót og Naarat, lentu hjá Jeríkó og lágu þaðan að Jórdan.
8 Frá Tappúa lágu landamerkin í vestur til Kana-lækjar og þaðan alla leið til sjávar. Þetta er óðal kynkvíslar Efraíms sona, eftir ættum þeirra,
9 auk þess borgirnar, sem skildar voru frá handa Efraíms sonum í ættaróðali Manasse sona _ allar borgirnar og þorpin, er að lágu.
10 En ekki ráku þeir burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser. Fyrir því búa Kanaanítar meðal Efraíms fram á þennan dag og urðu vinnuskyldir þrælar.
17 Kynkvísl Manasse fékk sinn hlut, því að hann var frumgetningur Jósefs. Makír, frumgetningur Manasse, faðir Gíleaðs, fékk Gíleað og Basan, því að hann var bardagamaður.
2 Og hinir synir Manasse fengu sinn hluta eftir ættum þeirra: synir Abíesers, synir Heleks, synir Asríels, synir Sekems, synir Hefers og synir Semída. Þessir voru synir Manasse Jósefssonar í karllegginn, eftir ættum þeirra.
3 En Selofhað Hefersson, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, átti enga sonu, heldur dætur einar, og hétu þær Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa.
4 Þær gengu fyrir Eleasar prest, Jósúa Núnsson og höfuðsmennina og sögðu: "Drottinn bauð Móse að gefa oss óðal meðal bræðra vorra." Gaf hann þeim þá eftir boði Drottins óðal meðal bræðra föður þeirra.
5 Komu þá tíu hlutir á Manasse, auk Gíleaðlands og Basans, sem liggja hinumegin Jórdanar,
6 með því að dætur Manasse fengu óðal meðal sona hans, en Gíleaðland fengu hinir synir Manasse.
7 Landamerki Manasse lágu frá Asser til Mikmetat, sem liggur fyrir austan Síkem; þaðan lágu landamærin til hægri, til þeirra sem bjuggu í En-Tappúa.
8 Tappúasveit fékk Manasse, en Tappúaborg, sem lá við takmörk Manasse, fengu Efraíms synir.
9 Þá lágu landamerkin niður að Kana-læk, fyrir sunnan lækinn. Þessar borgir heyra Efraím mitt á meðal borga Manasse. Þaðan lágu landamerki Manasse norðan með læknum og alla leið til sjávar.
10 Það sem var að sunnanverðu, átti Efraím, en það sem var að norðanverðu, átti Manasse, og hafið réð takmörkum hans. Að norðanverðu lágu lönd þeirra að Asser og að austanverðu að Íssakar.
11 En í Íssakar og Asser fékk Manasse: Bet Sean og smáborgirnar, er að liggja, Jibleam og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Dór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Endór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Taanak og smáborgirnar, er að liggja, og íbúana í Megiddó og smáborgirnar, er að liggja, þ. e. hæðirnar þrjár.
12 En ekki gátu Manasse synir stökkt íbúum þessara borga burt, og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu.
13 En þegar Ísraelsmenn efldust, gjörðu þeir Kanaaníta sér vinnuskylda, en ráku þá ekki algjörlega burt.
14 Þá báru Jósefs synir sig upp við Jósúa og sögðu: "Hví hefir þú ekki gefið mér nema eitt hlutskipti og einn hlut að óðali, og er ég þó fjölmennur, þar sem Drottinn hefir blessað mig allt til þessa?"
15 Jósúa sagði við þá: "Ef þú ert orðinn svo fjölmennur, þá far þú upp í skóginn og ryð þér þar til bólstaða í landi Peresíta og Refaíta, ef of þröngt er orðið um þig á Efraímfjöllum."
16 Þá sögðu Jósefs synir: "Fjalllendið nægir oss eigi, því að allir Kanaanítar, þeir er á sléttlendinu búa, hafa járnvagna, bæði þeir sem búa í Bet Sean og þorpunum, er að liggja, og þeir sem búa á Jesreelsléttunni."
17 Þá sagði Jósúa við hús Jósefs, við Efraím og Manasse: "Þú ert orðinn fjölmennur, og styrkur þinn er mikill. Þú skalt fá meira en einn erfðahluta,
18 því að fjalllendið skal vera þitt. Ef það er skógi vaxið, þá verður þú að ryðja hann, þá munt þú og eignast fjalladrögin. Því að þú verður að reka Kanaanítana burt, fyrst þeir hafa járnvagna og fyrst þeir eru sterkir."
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
8 Þá munu menn _ segir Drottinn _ taka bein Júdakonunga og bein Júdahöfðingja og bein prestanna og bein spámannanna og bein Jerúsalembúa úr gröfum þeirra,
2 og breiða þau út á móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins, er þeir elskuðu og þjónuðu og eltu og gengu til frétta við og féllu fram fyrir. Þeim verður ekki safnað saman og þau verða ekki grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum.
3 Og allar leifarnar, þeir er eftir verða af þessari vondu kynslóð á öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið þá, munu heldur kjósa dauða en líf _ segir Drottinn allsherjar.
4 Seg því við þá: Svo segir Drottinn: Hvort falla menn og standa ekki upp aftur? Eða hverfa menn burt án þess að koma aftur?
5 Hvers vegna hefir þessi lýður horfið burt til ævarandi fráhvarfs? Þeir halda fast við svikin og vilja ekki hverfa aftur.
6 Ég tók eftir og heyrði: Þeir tala ósannindi, enginn iðrast illsku sinnar, svo að hann segi: "Hvað hefi ég gjört?" Allir hafa þeir gjörst fráhverfir í rásinni, eins og hestur, sem ryðst áfram í orustu.
7 Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar, en lýður minn þekkir ekki rétt Drottins.
8 Hvernig getið þér sagt: "Vér erum vitrir og lögmál Drottins er hjá oss"? Víst er svo, en lygapenni fræðimannanna hefir gjört það að lygi.
9 Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði Drottins, hvaða visku hafa þeir þá?
10 Fyrir því mun ég selja konur þeirra öðrum á vald og sigurvegurunum lönd þeirra, því að bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi.
11 Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: "Heill, heill!" þar sem engin heill er.
12 Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast _ segir Drottinn.
13 Ég vil safna þeim saman eins og um uppskeru _ segir Drottinn _ en engin vínber eru á vínviðinum og engar fíkjur á fíkjutrénu, og laufið er fölnað. Vil ég því selja þá þeim á vald, er þá munu upp eta.
14 Til hvers sitjum vér hér kyrrir? Safnist saman og höldum inn í víggirtu borgirnar og förumst þar, því að Drottinn, Guð vor, lætur oss farast og drykkjar oss með eiturvatni, af því að vér höfum syndgað á móti Drottni.
15 Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!
16 Frá Dan heyrist frýsið í fákum hans, og af hneggi hesta hans nötrar allt landið, og þeir koma og eta upp landið og það, sem í því er, borgina og íbúa hennar.
17 Sjá, ég sendi meðal yðar höggorma, nöðrur, sem særingar vinna ekki á, og þeir skulu bíta yður _ segir Drottinn.
18 Ó hvað má hugsvala mér í harminum! Hjartað er sjúkt í mér.
19 Heyr, kvein þjóðar minnar hljómar úr fjarlægu landi. Er Drottinn ekki í Síon, eða er konungur hennar ekki í henni? "Hví egndu þeir mig til reiði með skurðmyndum sínum, með fánýtum, útlendum goðum?"
20 Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp.
21 Ég er helsærður af helsári þjóðar minnar, ég geng í sorgarbúningi, skelfing hefir gripið mig.
22 Eru þá engin smyrsl í Gíleað, eða er þar enginn læknir? Hví er engin hyldgan komin á sár þjóðar minnar?
22 Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti:
2 "Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns.
3 Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.
4 Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ,Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.`
5 En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns,
6 en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
7 Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.
8 Síðan segir hann við þjóna sína: ,Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir.
9 Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.`
10 Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
11 Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum.
12 Hann segir við hann: ,Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?` Maðurinn gat engu svarað.
13 Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir."
15 Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín, hvernig þeir gætu flækt hann í orðum.
16 Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum, og þeir segja: "Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun.
17 Seg oss því, hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"
18 Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: "Hví freistið þér mín, hræsnarar?
19 Sýnið mér peninginn, sem goldinn er í skatt." Þeir fengu honum denar.
20 Hann spyr: "Hvers mynd og yfirskrift er þetta?"
21 Þeir svara: "Keisarans." Hann segir: "Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er."
22 Þegar þeir heyrðu þetta, undruðust þeir, og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.
23 Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
24 "Meistari, Móse segir: ,Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.`
25 Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna.
26 Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö.
27 Síðast allra dó konan.
28 Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana."
29 En Jesús svaraði þeim: "Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs.
30 Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni.
31 En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður:
32 ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda."
33 En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans.
34 Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman.
35 Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði:
36 "Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?"
37 Hann svaraði honum: ",Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.`
38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.
39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.`
40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir."
41 Meðan farísearnir voru saman komnir, spurði Jesús þá:
42 "Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?" Þeir svara: "Davíðs."
43 Hann segir: "Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin? Hann segir:
44 Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
45 Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"
46 Enginn gat svarað honum einu orði, og frá þeim degi þorði enginn að spyrja hann neins framar.
by Icelandic Bible Society