Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
37 Já, yfir þessu titrar hjarta mitt og hrökkur upp úr stað sínum.
2 Heyrið, heyrið drunur raddar hans og hvininn, sem út fer af munni hans.
3 Undir öllum himninum lætur hann eldinguna þjóta og leiftur sitt út á jaðra jarðarinnar.
4 Á eftir því kemur öskrandi skrugga, hann þrumar með sinni tignarlegu raust og heldur eldingunum ekki aftur, þá er raust hans lætur til sín heyra.
5 Guð þrumar undursamlega með raust sinni, hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum.
6 Því að hann segir við snjóinn: "Fall þú á jörðina," og eins við hellirigninguna og hennar dynjandi helliskúrir.
7 Hann innsiglar hönd sérhvers manns, til þess að allir menn viðurkenni verk hans.
8 Þá fara villidýrin í fylgsni sín og hvílast í bælum sínum.
9 Stormurinn kemur úr forðabúrinu og kuldinn af norðanvindunum.
10 Fyrir andgust Guðs verður ísinn til, og víð vötnin eru lögð í læðing.
11 Hann hleður skýin vætu, tvístrar leifturskýi sínu víðsvegar.
12 En það snýst í allar áttir, eftir því sem hann leiðir það, til þess að það framkvæmi allt það er hann býður því, á yfirborði allrar jarðarinnar.
13 Hann lætur því ljósta niður, hvort sem það er til hirtingar eða til að vökva jörðina eða til að blessa hana.
14 Hlýð þú á þetta, Job, stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.
15 Skilur þú, hvernig Guð felur þeim hlutverk þeirra og lætur leiftur skýja sinna skína?
16 Skilur þú, hvernig skýin svífa, dásemdir hans, sem fullkominn er að vísdómi,
17 þú, sem fötin hitna á, þá er jörðin mókir í sunnanmollu?
18 Þenur þú út með honum heiðhimininn, sem fastur er eins og steyptur spegill?
19 Kenn oss, hvað vér eigum að segja við hann! Vér megnum ekkert fram að færa fyrir myrkri.
20 Á að segja honum, að ég ætli að tala? Eða hefir nokkur sagt, að hann óski að verða gjöreyddur?
21 Og nú sjá menn að sönnu ekki ljósið, sem skín skært að skýjabaki, en vindurinn þýtur áfram og sópar skýjunum burt.
22 Gullið kemur úr norðri, um Guð lykur ógurlegur ljómi.
23 Vér náum eigi til hins Almáttka, til hans, sem er mikill að mætti. En réttinn og hið fulla réttlæti vanrækir hann ekki.
24 Fyrir því óttast mennirnir hann, en hann lítur ekki við neinum sjálfbirgingum.
17 Og einn af englunum sjö, sem halda á skálunum sjö, kom til mín og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér dóminn yfir skækjunni miklu, sem er við vötnin mörgu.
2 Konungar jarðarinnar hafa drýgt saurlifnað með henni, og þeir, sem á jörðinni búa, hafa orðið drukknir af saurlifnaðar víni hennar."
3 Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn.
4 Og konan var skrýdd purpura og skarlati, og var búin gulli og gimsteinum og perlum. Hún hafði í hendi sér gullbikar, fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar.
5 Og á enni hennar var ritað nafn, sem er leyndardómur: Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.
6 Og ég sá að konan var drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta. Og ég undraðist stórlega, er ég leit hana.
7 Og engillinn sagði við mig: "Hví ertu forviða? Ég mun segja þér leyndardóm konunnar og dýrsins, sem hana ber, þess er hefur höfuðin sjö og hornin tíu:
8 Dýrið, sem þú sást, var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar. Og þeir, sem á jörðu búa, þeir, sem eiga ekki nöfn sín skrifuð í lífsins bók frá grundvöllun veraldar, munu undrast, er þeir sjá dýrið sem var og er ekki og kemur aftur.
9 Hér reynir á skilning og speki. Höfuðin sjö eru sjö fjöll, sem konan situr á. Það eru líka sjö konungar.
10 Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt.
11 Og dýrið, sem var, en er ekki, er einmitt hinn áttundi, og er af þeim sjö, og fer til glötunar.
12 Og hornin tíu, sem þú sást, eru tíu konungar, sem enn hafa eigi tekið konungdóm, heldur fá vald sem konungar eina stund ásamt dýrinu.
13 Þessir hafa allir eitt ráð, og máttinn og vald sitt gefa þeir dýrinu.
14 Þessir munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, _ því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga."
15 Og hann segir við mig: "Vötnin, sem þú sást, þar sem skækjan situr, eru lýðir og fólk, þjóðir og tungur.
16 Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi,
17 því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn og vera samráða og gefa ríki þeirra dýrinu, allt til þess er orð Guðs koma fram.
18 Og konan, sem þú sást, er borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar."
by Icelandic Bible Society