Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 104:1-9

104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.

Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.

Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.

Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.

Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.

Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,

en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.

Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.

Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.

Sálmarnir 104:24

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

Sálmarnir 104:35

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

Jobsbók 36:1-16

36 Og Elíhú hélt áfram og sagði:

Haf þolinmæði við mig enn stutta stund, að ég megi fræða þig, því að enn má margt segja Guði til varnar.

Ég ætla að sækja þekking mína langar leiðir og sanna, að skapari minn hafi á réttu að standa.

Því að vissulega fer ég eigi með ósannindi, maður með fullkominni þekking stendur frammi fyrir þér.

Sjá, Guð er voldugur, þó fyrirlítur hann engan, voldugur að andans krafti.

Hann viðheldur ekki lífi hins óguðlega, en veitir hinum voluðu rétt þeirra.

Hann hefir ekki augun af hinum réttláta, og hjá konungum í hásætinu lætur hann þá sitja að eilífu, til þess að þeir séu hátt upp hafnir.

Og þótt þeir verði viðjum reyrðir, veiddir í snörur eymdarinnar,

og hann setur þeim fyrir sjónir gjörðir þeirra og afbrot þeirra að þeir breyttu drambsamlega,

10 og hann opnar eyru þeirra fyrir umvönduninni og segir að þeir skuli snúa sér frá ranglæti, _

11 ef þeir þá hlýða og þjóna honum, þá eyða þeir dögum sínum í velgengni og árum sínum í unaði.

12 En hlýði þeir ekki, þá farast þeir fyrir skotvopnum, gefa upp andann í vanhyggju sinni.

13 Því að vonskufullir í hjarta ala þeir með sér reiði, hrópa eigi á hjálp, þegar hann fjötrar þá.

14 Önd þeirra deyr í æskublóma og líf þeirra eins og hórsveina.

15 En hann frelsar hinn bágstadda með bágindum hans og opnar eyru þeirra með þrengingunni.

16 Einnig þig ginnir hann út úr gini neyðarinnar út á víðlendi, þar sem engin þrengsli eru, og það sem kemur á borð þitt, er fullt af feiti.

Bréf Páls til Rómverja 15:7-13

Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.

Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,

en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."

10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"

11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"

12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."

13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society