Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 22:1-15

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

Jobsbók 18

18 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hversu lengi ætlið þér að halda áfram þessu orðaskaki? Látið yður segjast, og því næst skulum vér talast við.

Hvers vegna erum vér metnir sem skepnur, orðnir heimskir í yðar augum?

Þú, sem tætir sjálfan þig sundur í reiði þinni, _ á jörðin þín vegna að fara í auðn og bjargið að færast úr stað sínum?

Ljós hins óguðlega slokknar, og logi elds hans skín ekki.

Ljósið myrkvast í tjaldi hans, og það slokknar á lampanum yfir honum.

Hans öflugu skref verða stutt, og ráðagjörð sjálfs hans steypir honum,

því að hann rekst í netið með fætur sína, og hann gengur í möskvunum.

Möskvi festist um hæl hans, lykkjan herðist að honum.

10 Snaran liggur falin á jörðinni, og gildran liggur fyrir honum á stígnum.

11 Skelfingar hræða hann allt um kring og hrekja hann áfram, hvar sem hann gengur.

12 Ógæfu hans tekur að svengja, og glötunin bíður búin eftir falli hans.

13 Hún tærir húð hans, og frumburður dauðans etur limu hans.

14 Hann er hrifinn burt úr tjaldi sínu, er hann treysti á, og það lætur hann ganga til konungs skelfinganna.

15 Í tjaldi hans býr það, sem eigi er hans, brennisteini er stráð yfir bústað hans.

16 Að neðan þorna rætur hans, að ofan visna greinar hans.

17 Minning hans hverfur af jörðunni, og nafn hans er ekki nefnt á völlunum.

18 Menn hrinda honum frá ljósinu út í myrkrið og reka hann burt af jarðríki.

19 Hann mun hvorki eiga börn né buru meðal þjóðar sinnar, og enginn, sem undan hefir komist, er í híbýlum hans.

20 Yfir skapadægri hans skelfast eftirkomendurnir, og hrylling grípur þá, er fyrr voru uppi.

21 Já, svo fer um bústaði hins rangláta og svo um samastað þess manns, sem eigi þekkir Guð.

Bréfið til Hebrea 4:1-11

Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr.

Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú.

En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims.

Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín."

Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar."

Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni.

Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."

Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.

Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.

10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.

11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society