Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 55:1-15

55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.

Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn

sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,

ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,

svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]

Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.

11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.

12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.

13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,

14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,

15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.

Jobsbók 11

11 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði:

Á ekki að svara orðagjálfrinu, og á málskrafsmaðurinn að hafa rétt fyrir sér?

Ættu stóryrði þín að koma mönnum til að þegja, og ættir þú að spotta og enginn sneypa þig,

þar sem þú segir: "Kenning mín er rétt, og ég er hreinn í augum Guðs"?

En _ ó að Guð vildi tala og ljúka upp vörum sínum í móti þér

og kunngjöra þér leyndardóma spekinnar, að í þeim felast margföld hyggindi, þá mundir þú kannast við, að Guð hegnir ekki til fulls misgjörð þinni.

Getur þú náð til botns í Guði eða komist til ystu takmarka hins Almáttka?

Himinhá er speki hans _ hvað fær þú gjört? dýpri en undirheimar _ hvað fær þú vitað?

Hún er lengri en jörðin að víðáttu og breiðari en hafið.

10 Ef hann ryðst fram og hneppir í varðhald og stefnir dómþing _ hver aftrar honum?

11 Því að hann þekkir varmennin og sér ranglætið, þótt hann sé ekki að veita því athygli.

12 Verður óvitur maður hygginn? og fæðist skógarösnu-folald sem maður?

13 Ef þú undirbýr hjarta þitt og breiðir út lófa þína til hans,

14 _ ef misgjörð er í hendi þinni, þá fjarlæg hana, og lát eigi órétt búa í tjöldum þínum _

15 já, þá munt þú flekklaus hefja höfuð þitt, munt standa fastur og eigi þurfa að óttast.

16 Já, þá munt þú gleyma mæðu þinni, þú munt minnast hennar sem vatns, er runnið er fram hjá.

17 Og lífið mun renna upp bjartara en hádegið, þótt dimmi, þá mun það verða sem morgunn.

18 Og þú munt vera öruggur, því að enn er von, og skyggnist þú um, getur þú lagst óhultur til hvíldar.

19 Og þú hvílist, og enginn hræðir þig, og margir munu reyna að koma sér í mjúkinn hjá þér.

20 En augu hinna óguðlegu daprast, fyrir þá er fokið í öll skjól, og þeirra eina von er að gefa upp andann.

Fyrra bréf Páls til Korin 7:10-16

10 Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, _

11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn _, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.

12 En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.

13 Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn.

14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög.

15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.

16 Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society