Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.
18 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Jósíason, Júdakonung: Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, bróðir minn! Æ, systir!" Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, herra! Æ, vegsemd hans!"
19 Hann skal verða jarðaður eins og asni er jarðaður: dreginn burt og varpað langt út fyrir hlið Jerúsalem.
20 Stíg þú upp á Líbanon og hljóða! Lát raust þína gjalla í Basan og hljóða þú frá Abarím, því að allir ástmenn þínir eru sundurmolaðir.
21 Ég talaði við þig í velgengni þinni, en þú sagðir: "Ég vil ekki heyra!" Þannig var breytni þín frá æsku, að þú hlýddir ekki minni raustu.
22 Nú mun stormurinn hirða alla hirða þína, og ástmenn þínir munu herleiddir verða. Já, þá munt þú verða til skammar og smánar vegna allrar vonsku þinnar.
23 Þú sem býr á Líbanon og hreiðrar þig í sedrustrjám, hversu munt þú stynja, þegar hríðirnar koma yfir þig, kvalir eins og yfir jóðsjúka konu.
24 Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _ þótt Konja Jójakímsson, konungur í Júda, væri innsiglishringur á hægri hendi minni, þá mundi ég rífa hann þaðan.
25 Og ég sel þig í hendur þeirra, sem sitja um líf þitt, og í hendur þeirra, sem þú hræðist, og í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur Kaldea.
26 Og ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, burt til annars lands, þar sem þið ekki eruð fædd, og þar skuluð þið deyja,
27 en í landið, sem þeir þrá að komast til aftur, þangað skulu þeir aldrei aftur komast.
28 Er þá þessi Konja fyrirlitlegt ílát, sem ekki er til annars en að brjóta sundur, eða ker, sem engum manni geðjast að? Hví var honum og niðjum hans þá kastað burt og varpað til lands, sem þeir þekktu ekki?
29 Ó land, land, land, heyr orð Drottins!
30 Svo segir Drottinn: Skrásetjið þennan mann barnlausan, mann, sem ekki mun verða lángefinn um dagana, því að engum af niðjum hans mun auðnast að sitja í hásæti Davíðs og ríkja framar yfir Júda.
15 Menn færðu og til hans ungbörnin, að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá.
16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
17 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."
by Icelandic Bible Society