Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
17 Þótt fíkjutréð blómgist ekki og víntrén beri engan ávöxt, þótt gróði olíutrésins bregðist og akurlöndin gefi enga fæðu, þótt sauðfé hverfi úr réttinni og engin naut verði eftir í nautahúsunum,
18 þá skal ég þó gleðjast í Drottni, fagna yfir Guði hjálpræðis míns.
11 Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.
12 Hann sagði: "Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur.
13 Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.`
14 En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.`
15 Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.
16 Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.`
17 Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.`
18 Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.`
19 Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.`
20 Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki,
21 því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.`
22 Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki.
23 Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.`
24 Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.`
25 En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.`
26 Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
27 En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."
by Icelandic Bible Society