Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
17 Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.
18 Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.
19 Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.
20 Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður.
21 Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.
22 Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.
23 Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.
24 Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra.
25 Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra _ segir Drottinn.
12 Á þeim degi skaltu segja: "Ég vegsama þig, Drottinn, því þótt þú værir mér reiður, þá er þó horfin reiði þín og þú huggaðir mig.
2 Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði."
3 Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
4 Og á þeim degi munuð þér segja: "Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans.
5 Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.
6 Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín."
6 En vér bjóðum yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér sneiðið hjá hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega og ekki eftir þeirri kenningu, sem þeir hafa numið af oss.
7 Því að sjálfir vitið þér, hvernig á að breyta eftir oss. Ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður,
8 neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla.
9 Ekki af því að vér höfum ekki rétt til þess, heldur til þess að vér gæfum yður sjálfa oss sem fyrirmynd til eftirbreytni.
10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.
11 Vér heyrum, að nokkrir meðal yðar lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við.
12 Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá vegna Drottins Jesú Krists, að vinna kyrrlátlega og eta eigið brauð.
13 En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra.
5 Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús:
6 "Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
7 En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"
8 Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og ,Tíminn er í nánd!` Fylgið þeim ekki.
9 En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."
10 Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,
11 þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.
12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns.
13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.
14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast,
15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.
16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir.
17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,
18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar.
19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.
by Icelandic Bible Society