Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]
5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.
66 Svo segir Drottinn: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn?
2 Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið _ segir Drottinn. Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.
3 Sá sem slátrar uxa, er ekki mætari en manndrápari, sá sem fórnar sauð, er ekki mætari en sá sem hengir hund, sá sem færir fórnargjöf, ekki mætari en sá sem ber fram svínablóð, sá sem brennir reykelsi, ekki mætari en sá sem blessar skurðgoð. Eins og þeir hafa valið sína vegu og eins og sál þeirra hefir mætur á hinum viðurstyggilegu goðum þeirra,
4 eins mun ég láta mér vel líka að hrjá þá og láta yfir þá koma það, er þeir hræðast. Því að enginn gegndi, þegar ég kallaði, og þeir heyrðu ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðu mætur á því, sem mér mislíkaði.
5 Heyrið orð Drottins, þér sem skjálfið fyrir orði hans! Bræður yðar, er hata yður og reka yður burt frá sér fyrir sakir nafns míns, þeir segja: "Gjöri Drottinn sig dýrlegan, svo að vér megum sjá gleði yðar!" En þeir skulu til skammar verða.
6 Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu! Heyr, Drottinn geldur óvinum sínum fyrir tilverknað þeirra!
7 Hún fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina.
8 Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu? Því að óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín.
9 Skyldi ég láta barnið komast í burðarliðinn og ekki láta það fæðast? _ segir Drottinn. Eða skyldi ég, sem læt barnið fæðast, loka móðurkviðnum? _ segir Guð þinn.
10 Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana! Kætist með henni, allir þér sem nú hryggist yfir henni,
11 svo að þér megið sjúga og saddir verða við hugsvalandi brjóst hennar, svo að þér megið teyga og gæða yður við dýrðargnótt hennar.
12 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti, og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk. Þér skuluð liggja á brjóstum hennar og skuluð bornir verða á mjöðminni og yður skal hossað verða á hnjánum.
13 Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður. Í Jerúsalem skuluð þér huggaðir verða.
23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.
24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.
25 Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar.
26 Því að jörðin er Drottins og allt, sem á henni er.
27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar.
28 En ef einhver segir við yður: "Þetta er fórnarkjöt!" þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar.
29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars?
30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir?
31 Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.
32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar.
33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.
11 Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.
by Icelandic Bible Society