Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.
12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.
13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,
14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.
15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.
16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.
17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.
18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.
19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.
20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.
21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"
22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.
23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,
25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."
26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.
27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"
28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.
35 Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið að gjöra:
2 ,Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur, hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi, skal líflátinn verða.
3 Hvergi skuluð þér kveikja upp eld í híbýlum yðar á hvíldardegi."`
4 Móse talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna og mælti: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið:
5 ,Færið Drottni gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf Drottni til handa: gull, silfur og eir;
6 bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull og geitahár;
7 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuvið;
8 olíu til ljósastikunnar, kryddjurtir til smurningarolíu og ilmreykelsis;
9 sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn.
10 Og allir hagleiksmenn meðal yðar komi og búi til allt það, sem Drottinn hefir boðið:
11 búðina, tjöldin yfir hana, þak hennar, króka, borð, slár, stólpa og undirstöður,
12 örkina og stengurnar, er henni fylgja, lokið og fortjaldsdúkbreiðuna,
13 borðið og stengurnar, er því fylgja, öll áhöld þess og skoðunarbrauðin,
14 ljósastikuna, áhöld þau og lampa, er henni fylgja, og olíu til ljósastikunnar,
15 reykelsisaltarið og stengurnar, er því fylgja, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir dyrnar, fyrir dyr búðarinnar,
16 brennifórnaraltarið og eirgrindina, sem því fylgir, stengur þess og öll áhöld, og kerið með stétt þess,
17 tjöld forgarðsins, stólpa hans með undirstöðum og dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins,
18 hæla búðarinnar og hæla forgarðsins og þau stög, sem þar til heyra,
19 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans."`
20 Því næst gekk allur söfnuður Ísraelsmanna burt frá Móse.
21 Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu Drottni gjafir til að gjöra af samfundatjaldið og allt það, sem þurfti til þjónustugjörðarinnar í því og til hinna helgu klæða.
22 Og þeir komu, bæði menn og konur, allir þeir, sem fúsir voru að gefa, og færðu spangir, eyrnagull, hringa, hálsmen og alls konar gullgripi, svo og hver sá, er færa vildi Drottni gull að fórnargjöf.
23 Og hver maður, sem átti í eigu sinni bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull, geitahár, rauðlituð hrútskinn og höfrungaskinn, bar það fram.
24 Og hver sem bar fram silfur og eir að fórnargjöf, færði það Drottni að fórnargjöf, og hver sem átti í eigu sinni akasíuvið til hvers þess smíðis, er gjöra skyldi, bar hann fram.
25 Og allar hagvirkar konur spunnu með höndum sínum og báru fram spuna sinn: bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull.
26 Og allar konur, sem til þess voru fúsar og höfðu kunnáttu til, spunnu geitahár.
27 En foringjarnir færðu sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn,
28 og kryddjurtir og olíu til ljósastikunnar og til smurningarolíu og ilmreykelsis.
29 Ísraelsmenn færðu Drottni þessar gjafir sjálfviljuglega, hver maður og hver kona, er fúslega vildi láta eitthvað af hendi rakna til alls þess verks, er Drottinn hafði boðið Móse að gjöra.
9 Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir.
10 Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða, varð hann frá sér numinn,
11 sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum.
12 Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins.
13 Og honum barst rödd: "Slátra nú, Pétur, og et!"
14 Pétur sagði: "Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint."
15 Aftur barst honum rödd: "Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!"
16 Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins.
17 Meðan Pétur var að reyna að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja, höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar. Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti
18 og kölluðu: "Er Símon sá, er nefnist Pétur, gestur hér?"
19 Pétur var enn að hugsa um sýnina, þegar andinn sagði við hann: "Menn eru að leita þín.
20 Flýt þér nú ofan og far hiklaust með þeim, því að ég hef sent þá."
21 Pétur gekk þá niður til mannanna og sagði: "Ég er sá sem þér leitið að. Hvers vegna eruð þér komnir hér?"
22 Þeir sögðu: "Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðhræddur og orðsæll af allri Gyðinga þjóð, fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja."
23 Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista. Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir bræður frá Joppe með honum.
by Icelandic Bible Society