Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
18 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna.
19 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím.
20 Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, uns hann hafði burtsnarað þeim frá augliti sínu. En Sedekía brá trúnaði við Babelkonung.
25 Á níunda ríkisári Sedekía, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadnesar Babelkonungur með allan sinn her til Jerúsalem og settist um hana, og þeir reistu hervirki hringinn í kringum hana.
2 Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs.
3 Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus,
4 þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina. Konungur hélt leiðina til sléttlendisins,
5 en her Kaldea veitti honum eftirför og náði honum á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum.
6 Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.
7 Drápu þeir sonu Sedekía fyrir augum hans, en Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan fluttu þeir hann til Babýlon.
8 Í fimmta mánuði, á sjöunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadnesars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem
9 og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi.
10 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður múrana umhverfis Jerúsalem.
11 En leifar lýðsins _ þá er eftir voru í borginni _ og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon.
12 En af almúga landsins lét lífvarðarforinginn nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.
13 Eirsúlurnar, er voru hjá musteri Drottins, og vagna kerlauganna og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu eirinn til Babýlon.
14 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir.
15 Þá tók og lífvarðarforinginn eldpönnurnar og fórnarskálarnar _ allt sem var af gulli og silfri.
16 Súlurnar tvær, hafið og vagnana, er Salómon hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn.
17 Önnur súlan var átján álnir á hæð, og eirhöfuð var ofan á henni, og höfuðið var fimm álnir á hæð, og riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á riðna netinu á hinni súlunni.
18 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og dyraverðina þrjá.
19 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og fimm menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni _
20 þá tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs.
21 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamathéraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.
20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.
21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.
22 Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.
23 En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.
24 Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft.
25 Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans.
26 Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.
27 "Allt hefur hann lagt undir fætur honum." Þegar stendur, að allt hafi verið lagt undir hann, er augljóst, að sá er undan skilinn, sem lagði allt undir hann.
28 En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.
29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?
30 Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund?
31 Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.
32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!
33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.
34 Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.
by Icelandic Bible Society