Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
38 Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.
4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.
5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.
7 Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.
8 Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
9 Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.
10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.
11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.
13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.
14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.
16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,
20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,
23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.
33 Jakob hóf upp augu sín og sá Esaú koma og með honum fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar.
2 Og hann lét ambáttirnar og þeirra börn vera fremst, þá Leu og hennar börn, og Rakel og Jósef aftast.
3 En sjálfur gekk hann á undan þeim og laut sjö sinnum til jarðar, uns hann kom fast að bróður sínum.
4 Þá hljóp Esaú á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann, og þeir grétu.
5 Og Esaú leit upp og sá konurnar og börnin og mælti: "Hvernig stendur á þessu fólki, sem með þér er?" Og hann svaraði: "Það eru börnin, sem Guð hefir af náð sinni gefið þjóni þínum."
6 Þá gengu fram ambáttirnar og börn þeirra og hneigðu sig.
7 Þá gekk og Lea fram og börn hennar og hneigðu sig, og síðan gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig.
8 Esaú mælti: "Hvað skal allur þessi hópur, sem ég mætti?" Jakob svaraði: "Að ég megi finna náð í augum herra míns."
9 Þá mælti Esaú: "Ég á nóg. Eig þú þitt, bróðir minn!"
10 En Jakob sagði: "Eigi svo. Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá þigg þú gjöfina af mér, því að þegar ég sá auglit þitt, var sem ég sæi Guðs auglit, og þú tókst náðarsamlega á móti mér.
11 Ég bið þig, að þú þiggir gjöf mína, sem þér var færð, því að Guð hefir verið mér náðugur og ég hefi allsnægtir." Og hann lagði að honum, svo að hann þá gjöfina.
12 Þá mælti Esaú: "Tökum okkur nú upp og höldum áfram, og skal ég fara á undan þér."
13 En hann svaraði honum: "Þú sér, herra minn, að börnin eru þróttlítil og að í ferðinni eru lambær og kýr með kálfum, og ræki ég þær of hart einn dag, þá mundi öll hjörðin drepast.
14 Fari herra minn á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum, eins og fénaðurinn getur farið, sem ég rek, og eins og börnin geta farið, uns ég kem til herra míns í Seír."
15 Þá mælti Esaú: "Þá vil ég þó láta eftir hjá þér nokkra af þeim mönnum, sem með mér eru." Hann svaraði: "Hver þörf er á því? Lát mig aðeins finna náð fyrir augum herra míns."
16 Síðan fór Esaú þann sama dag leiðar sinnar heim aftur til Seír.
17 Og Jakob hélt áfram til Súkkót og byggði sér hús, og handa fénaði sínum gjörði hann laufskála. Fyrir því heitir staðurinn Súkkót.
2 Ég hrósa yður fyrir það, að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.
3 En ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.
4 Sérhver sá maður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt.
5 En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig.
6 Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu.
7 Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins.
8 Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum,
9 og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins.
10 Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér.
11 Þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin,
12 því að eins og konan er komin af manninum, svo er og maðurinn fæddur af konunni, en allt er frá Guði.
13 Dæmið sjálfir: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð?
14 Kennir ekki sjálf náttúran yður, að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd,
15 en ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd? Því að síða hárið er gefið henni í höfuðblæju stað.
16 En ætli nú einhver sér að gjöra þetta að kappsmáli, þá viti sá, að annað er ekki venja vor eða safnaða Guðs.
by Icelandic Bible Society