Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
1 Á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn honum því í brjóst _ til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust _ að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, á þessa leið:
2 "Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda.
3 Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri Drottins, Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem.
4 Og hvern þann, sem enn er eftir, á sérhverjum þeim stað þar sem hann dvelst sem útlendingur, hann skulu menn á þeim stað styrkja með silfri og gulli og lausafé og kvikfénaði, auk sjálfviljagjafa til Guðs musteris í Jerúsalem."
5 Þá tóku ætthöfðingjar Júda og Benjamíns og prestarnir og levítarnir sig upp _ allir þeir, er Guð hafði blásið því í brjóst að fara og reisa musteri Drottins í Jerúsalem.
6 Og allir nágrannar þeirra hjálpuðu þeim um áhöld úr silfri, um gull, um lausafé og um kvikfénað og um gersemar, auk alls þess, er menn gáfu sjálfviljuglega.
7 Kýrus konungur lét af hendi kerin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar hafði flutt burt frá Jerúsalem og sett í musteri guðs síns.
8 Kýrus Persakonungur fékk þau í hendur Mítredat féhirði, og hann taldi þau út í hendur Sesbasar, höfðingja Júdaættkvíslar.
9 En talan á þeim var þessi: 30 gullskálar, 1.000 silfurskálar, 29 pönnur,
10 30 könnur af gulli, silfurkönnur minni háttar: 410, önnur ker 1.000 _
11 öll kerin af gulli og silfri til samans 5.400. Allt þetta flutti Sesbasar með sér, þá er hinir herleiddu voru fluttir frá Babýlon heim til Jerúsalem.
12 Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar um, að vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika, sem kemur frá Guði, ekki látið stjórnast af mannlegri speki, heldur af náð Guðs.
13 Vér skrifum yður ekki annað en það, sem þér getið lesið og skilið. Ég vona, að þér munið til fulls skilja það,
14 sem yður er að nokkru ljóst, að þér getið miklast af oss eins og vér af yður á degi Drottins vors Jesú.
15 Í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi.
16 Ég hugðist bæði koma við hjá yður á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta yður búa ferð mína til Júdeu.
17 Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé "já, já" sama og "nei, nei"?
18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei.
19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði "já" og "nei", heldur er allt í honum "já".
by Icelandic Bible Society