Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
11 Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason, konung í Júda, sem ríki tók eftir Jósía föður sinn og burt er farinn úr þessum stað: Hann mun aldrei framar koma hingað aftur,
12 heldur mun hann deyja á þeim stað, þangað sem þeir hafa flutt hann hertekinn, en þetta land mun hann aldrei framar líta.
13 Vei þeim, sem byggir hús sitt með ranglæti og veggsvalir sínar með rangindum, sem lætur náunga sinn vinna fyrir ekki neitt og greiðir honum ekki kaup hans,
14 sem segir: "Ég vil reisa mér rúmgott hús og loftgóðar svalir!" og heggur sér glugga, þiljar með sedrusviði og málar fagurrautt!
15 Ert þú konungur, þótt þú keppir við aðra með húsagjörð úr sedrusviði? Át ekki faðir þinn og drakk? En hann iðkaði rétt og réttlæti, þá vegnaði honum vel.
16 Hann rak réttar hinna aumu og fátæku, þá gekk allt vel. Er slíkt ekki að þekkja mig? _ segir Drottinn.
17 En augu þín og hjarta stefna eingöngu að eigin ávinning og að því að úthella saklausu blóði og beita kúgun og undirokun.
37 Þá er hann hafði þetta mælt, bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Hann kom og settist til borðs.
38 Faríseinn sá, að hann tók ekki handlaugar á undan máltíðinni, og furðaði hann á því.
39 Drottinn sagði þá við hann: "Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku.
40 Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra?
41 En gefið fátækum það, sem í er látið, og þá er allt yður hreint.
42 En vei yður, þér farísear! Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.
43 Vei yður, þér farísear! Yður er ljúft að skipa æðsta bekk í samkundum og láta heilsa yður á torgum.
44 Vei yður, því þér eruð eins og duldar grafir, sem menn ganga yfir án þess að vita."
45 Þá tók lögvitringur einn til orða: "Meistari, þú meiðir oss líka með því, sem þú segir."
46 En Jesús mælti: "Vei yður líka, þér lögvitringar! Þér leggið á menn lítt bærar byrðar, og sjálfir snertið þér ekki byrðarnar einum fingri.
47 Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu.
48 Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá, en þér hlaðið upp grafirnar.
49 Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: ,Ég mun senda þeim spámenn og postula, og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja.`
50 Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims,
51 frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð.
52 Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga."
by Icelandic Bible Society