Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
17 Filistar drógu nú saman hersveitir sínar til bardaga, og söfnuðust þeir saman í Sókó, sem heyrir Júda, og settu þeir herbúðir sínar hjá Efes-Dammím, milli Sókó og Aseka.
4 Þá gekk hólmgöngumaður fram úr fylkingum Filista. Hét hann Golíat og var frá Gat. Hann var á hæð sex álnir og spönn betur.
5 Hann hafði eirhjálm á höfði og var í spangabrynju, og vó brynjan fimm þúsund sikla eirs.
6 Hann hafði legghlífar af eiri á fótum sér og skotspjót af eiri á herðum sér.
7 En spjótskaft hans var sem vefjarrifur, og fjöðurin vó sex hundruð sikla járns. Skjaldsveinn hans gekk á undan honum.
8 Golíat gekk fram og kallaði til fylkinga Ísraels og mælti til þeirra: "Hví farið þér í leiðangur og búist til bardaga? Er ég ekki Filisti og þér þjónar Sáls? Veljið yður mann, sem komi hingað ofan til mín.
9 Sé hann fær um að berjast við mig og felli mig, þá skulum vér vera yðar þrælar, en beri ég hærra hlut og felli hann, þá skuluð þér vera vorir þrælar og þjóna oss."
10 Og Filistinn mælti: "Ég hefi smánað fylkingar Ísraels í dag. Fáið til mann, að við megum berjast."
11 Og þegar Sál og allur Ísrael heyrði þessi ummæli Filistans, þá skelfdust þeir og urðu mjög hræddir.
19 En Sál og þeir og allir Ísraelsmenn eru í Eikidalnum og eru að berjast við Filista."
20 Davíð reis árla morguninn eftir og fékk sauðina hirði nokkrum til geymslu og lyfti á sig og hélt af stað, eins og Ísaí hafði boðið honum. Þegar hann kom til herbúðanna, gekk herinn fram í fylkingu, og æptu þeir heróp.
21 Stóðu nú hvorir tveggja búnir til bardaga, Ísrael og Filistar, hvor fylkingin gegnt annarri.
22 Og Davíð skildi við sig það, er hann hafði meðferðis, hjá manni þeim, er gætti farangursins, og hljóp að fylkingunni og kom og spurði bræður sína, hvernig þeim liði.
23 En meðan hann var að tala við þá, sjá, þá gekk fram hólmgöngumaðurinn _ hann hét Golíat, Filisti frá Gat _ úr fylkingum Filistanna og mælti sömu orðum sem fyrr, og Davíð hlýddi á.
32 Davíð sagði við Sál: "Enginn láti hugfallast! Þjónn þinn mun fara og berjast við Filista þennan."
33 Sál sagði við Davíð: "Þú ert ekki fær um að fara móti Filista þessum og berjast við hann, því að þú ert ungmenni, en hann hefir verið bardagamaður frá barnæsku sinni."
34 Davíð sagði við Sál: "Þjónn þinn gætti sauða hjá föður sínum. Ef þá kom ljón eða björn og tók kind úr hjörðinni,
35 þá hljóp ég á eftir honum og felldi hann og reif kindina úr gini hans, en ef hann réðst í móti mér, þreif ég í kampa hans og laust hann til bana.
36 Bæði ljón og björn hefir þjónn þinn drepið, og þessum óumskorna Filista skal reiða af eins og þeim, því að hann hefir smánað herfylkingar lifanda Guðs."
37 Og Davíð mælti: "Drottinn, sem frelsaði mig úr klóm ljónsins og úr klóm bjarnarins, hann mun frelsa mig af hendi þessa Filista." Þá mælti Sál við Davíð: "Far þú þá, og Drottinn mun vera með þér."
38 Og Sál færði Davíð í brynjukufl sinn og setti eirhjálm á höfuð honum og færði hann í brynju.
39 Og Davíð gyrti sig sverði sínu utan yfir brynjukuflinn og fór að ganga, því að hann hafði aldrei reynt það áður. Þá sagði Davíð við Sál: "Ég get ekki gengið í þessu, því að ég hefi aldrei reynt það áður." Og þeir færðu Davíð úr þessu,
40 en hann tók staf sinn í hönd sér og valdi sér fimm hála steina úr gilinu og lét þá í smalatöskuna, sem hann hafði með sér, í skreppuna, og tók sér slöngvu í hönd og gekk á móti Filistanum.
41 Filistinn gekk nær og nær Davíð, og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk á undan honum.
42 En er Filistinn leit til og sá Davíð, fyrirleit hann hann, af því að hann var ungmenni og rauðleitur og fríður sýnum.
43 Og Filistinn sagði við Davíð: "Er ég þá hundur, að þú kemur með staf á móti mér?" Og Filistinn formælti Davíð við guð sinn.
44 Og Filistinn mælti við Davíð: "Kom þú til mín, svo að ég gefi fuglum loftsins og dýrum merkurinnar hold þitt."
45 Davíð sagði við Filistann: "Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað.
46 Í dag mun Drottinn gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael,
47 og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Drottinn veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Drottins, og hann mun gefa yður í vorar hendur."
48 Og er Filistinn fór af stað og gekk fram og fór í móti Davíð, þá flýtti Davíð sér og hljóp að fylkingunni í móti Filistanum.
49 Og Davíð stakk hendi sinni ofan í smalatöskuna og tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filistann í ennið, og steinninn festist í enni hans, og féll hann á grúfu til jarðar.
57 Og er Davíð sneri aftur og hafði lagt Filistann að velli, þá tók Abner hann og leiddi hann fyrir Sál, en hann hélt á höfði Filistans í hendi sér.
58 Og Sál sagði við hann: "Hvers son ert þú, sveinn?" Davíð svaraði: "Sonur þjóns þíns Ísaí Betlehemíta."
18 Þegar Davíð hafði endað tal sitt við Sál, þá lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu.
2 Og Sál tók Davíð að sér upp frá þeim degi og leyfði honum ekki að fara heim aftur til föður síns.
3 Og Jónatan gjörði fóstbræðralag við Davíð, af því að hann unni honum sem lífi sínu.
4 Og Jónatan fór úr skikkju sinni, sem hann var í, og gaf Davíð hana, svo og brynjukufl sinn og jafnvel sverð sitt, boga sinn og belti.
5 Og Davíð fór í leiðangra. Var hann giftudrjúgur, hvert sem Sál sendi hann. Setti Sál hann því yfir hermennina. Og hann var vel þokkaður af öllum lýð og einnig þjónum Sáls.
10 Daginn eftir kom illur andi frá Guði yfir Sál, og æði greip hann inni í húsinu, en Davíð var að leika hörpuna hendi sinni, eins og hann var vanur að gjöra á degi hverjum, og Sál hafði spjót í hendi.
11 Þá reiddi Sál spjótið og hugsaði með sér: "Ég skal reka það gegnum Davíð og inn í vegginn." En Davíð skaut sér tvívegis undan.
12 Sál var hræddur við Davíð, því að Drottinn var með honum, en var vikinn frá Sál.
13 Fyrir því lét Sál hann frá sér og gjörði hann að hersveitarforingja. Var hann nú fyrir liðinu bæði þegar það fór og kom.
14 En Davíð var giftudrjúgur í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, af því að Drottinn var með honum.
15 Og er Sál sá, að hann var giftusamur mjög, tók honum að standa uggur af honum.
16 En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð, því að hann gekk jafnan þeirra fremstur.
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
6 Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.
2 Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.
3 Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti.
4 Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist,
5 undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum,
6 með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika,
7 með sannleiksorði, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar,
8 í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi. Vér erum álitnir afvegaleiðendur, en erum sannorðir,
9 óþekktir, en þó alþekktir, komnir í dauðann og samt lifum vér, tyftaðir og þó ekki deyddir,
10 hryggir, en þó ávallt glaðir, fátækir, en auðgum þó marga, öreigar, en eigum þó allt.
11 Frjálslega tölum vér við yður, Korintumenn. Rúmt er um yður í hjarta voru.
12 Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt.
13 En svo að sama komi á móti, _ ég tala eins og við börn mín _, þá látið þér líka verða rúmgott hjá yður.
35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!"
36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum.
37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti.
38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?"
39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.
40 Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?"
41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum."
by Icelandic Bible Society