Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 108

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

Fyrri Samúelsbók 9:1-14

Maður er nefndur Kís. Hann var úr Benjamín og var sonur Abíels, Serórssonar, Bekóratssonar, Afíasonar, sonar Benjamíníta nokkurs, auðugur maður.

Hann átti son, er Sál hét, fyrirmannlegan og fríðan. Enginn af Ísraelsmönnum var fríðari en hann. Hann var höfði hærri en allur lýður.

Ösnur Kíss, föður Sáls, týndust, og Kís sagði við Sál, son sinn: "Tak með þér einn af sveinunum og farðu og leitaðu að ösnunum."

Og þeir fóru um Efraímfjöll og þeir fóru um Salísaland, en fundu þær ekki. Síðan fóru þeir um Saalímland, en þær voru þar eigi. Þá fóru þeir um Benjamínsland, en fundu þær ekki.

En er þeir voru komnir í Súf-land, þá sagði Sál við svein sinn, þann er með honum var: "Kom þú, við skulum snúa við, svo að faðir minn fari ekki að undrast um okkur, í stað þess að hugsa um ösnurnar."

Sveinninn svaraði honum: "Sjá, í borg þessari er guðsmaður einn, og er maðurinn frægur. Allt rætist, sem hann segir. Nú skulum við fara þangað; má vera að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda."

Sál sagði við hann: "Sjá, ef við förum, hvað eigum við þá að færa manninum? Því að brauðið er þrotið í malpokum okkar og gjöf höfum við enga að færa guðsmanninum. Hvað höfum við?"

Þá svaraði sveinninn Sál aftur og mælti: "Sjá, ég hefi hjá mér fjórðung úr silfursikli. Hann ætla ég að gefa guðsmanninum, til þess að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda." (

Fyrrum komust menn svo að orði í Ísrael, þá er þeir gengu til frétta við Guð: "Komið, vér skulum fara til sjáandans!" Því að þeir, sem nú eru kallaðir spámenn, voru fyrrum kallaðir sjáendur.)

10 Þá sagði Sál við svein sinn: "Þú hefir rétt að mæla. Kom þú, við skulum fara!" Síðan fóru þeir til borgarinnar, þar sem guðsmaðurinn var.

11 Er þeir voru að ganga upp stíginn upp að borginni, hittu þeir stúlkur, sem gengu út að sækja vatn, og sögðu við þær: "Er sjáandinn hér?"

12 Þær svöruðu þeim og sögðu: "Já, hann er rétt á undan ykkur. Hann er alveg nýkominn til borgarinnar, því að lýðurinn ætlar í dag að færa sláturfórnir á fórnarhæðinni.

13 Óðara en þið komið inn í borgina, munuð þið finna hann, áður en hann gengur upp á fórnarhæðina til að eta, því að lýðurinn etur ekki fyrr en hann kemur, af því að hann blessar fórnirnar; eftir það eta þeir, sem boðnir eru. Og gangið nú upp þangað, því að einmitt nú munuð þið finna hann."

14 Síðan gengu þeir upp til borgarinnar. Þegar þeir komu inn í borgina, sjá, þá gekk Samúel út á móti þeim og ætlaði upp á fórnarhæðina.

Lúkasarguðspjall 11:14-28

14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn.

15 En sumir þeirra sögðu: "Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana."

16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús.

18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist _ fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls?

19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.

20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á,

22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu.

23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

24 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.`

25 Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt,

26 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður."

27 Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: "Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir."

28 Hann sagði: "Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society