Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.
2 Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
3 Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
4 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.
5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?
6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.
10 Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi:
11 "Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín." Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina.
12 Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: "Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal."
13 Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: "Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins."
14 En Samúel mælti: "Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?"
15 Sál svaraði: "Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært."
16 Samúel sagði við Sál: "Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt." Sál sagði við hann: "Tala þú!"
17 Samúel mælti: "Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael?
18 Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.`
19 Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?"
20 Þá mælti Sál við Samúel: "Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað.
21 En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa."
22 Samúel mælti: "Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.
23 Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi."
22 Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið.
23 Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar.
24 Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína.
25 Og hliðum hennar verður aldrei lokað um daga _ því að nótt verður þar ekki.
26 Og menn munu færa henni dýrð og vegsemd þjóðanna.
27 Og alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi, engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins.
22 Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins.
2 Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.
3 Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna.
4 Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra.
5 Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.
by Icelandic Bible Society