Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
25 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga.
3 Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir;
4 blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár;
5 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður;
6 olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis;
7 sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn.
8 Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra.
9 Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér.
10 Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð.
11 Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli.
12 Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin.
13 Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær.
14 Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim.
15 Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan.
16 Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur.
17 Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd.
18 Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum.
19 Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess.
20 En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa.
21 Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér.
22 Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum.
2 Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.
2 Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.
3 Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.
4 Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,
5 til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.
6 Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,
7 heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.
8 Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.
9 En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.
10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.
by Icelandic Bible Society