Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 138

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

Fyrri Samúelsbók 4

Orð Samúels kom til alls Ísraels. Og Ísrael fór í móti Filistum til hernaðar, og settu þeir herbúðir sínar hjá Ebeneser, en Filistar settu herbúðir sínar hjá Afek.

Og Filistar fylktu liði sínu gegn Ísrael, og hallaðist bardaginn: Ísrael beið ósigur fyrir Filistum, og þeir felldu í valinn á vígvellinum um fjögur þúsund manns.

Og er lýðurinn kom aftur í herbúðirnar, þá sögðu öldungar Ísraels: "Hví hefir Drottinn látið oss bíða ósigur í dag fyrir Filistum? Vér skulum sækja sáttmálsörk Drottins til Síló, og þegar hún er komin hér meðal vor, mun hún frelsa oss af hendi óvina vorra."

Þá sendi lýðurinn menn til Síló, og þeir tóku þaðan sáttmálsörk Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum. Báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, fóru með sáttmálsörk Guðs.

En þegar sáttmálsörk Drottins kom í herbúðirnar, þá laust allur Ísrael upp svo miklu fagnaðarópi, að jörðin dundi.

Þegar Filistar heyrðu óminn af fagnaðarópinu, sögðu þeir: "Hvað merkir þetta glymjandi fagnaðaróp í herbúðum Hebrea?" Og er þeir urðu þess vísir, að örk Drottins væri komin í herbúðirnar,

þá urðu þeir skelkaðir, því að þeir hugsuðu: "Guð er kominn til þeirra í herbúðirnar," og sögðu: "Vei oss, því að slíkt hefir aldrei áður til borið!

Vei oss! Hver mun frelsa oss af hendi þessara voldugu guða? Það voru þessir guðir, sem lustu Egypta með alls konar plágum í eyðimörkinni.

Herðið ykkur upp og verið menn, Filistar, svo að þér verðið ekki ánauðugir Hebreum, eins og þeir hafa verið yður ánauðugir. Verið því menn og berjist!"

10 Og Filistar börðust, og Ísrael hafði ósigur, og þeir flýðu, hver heim til sín. Og mannfallið var mjög mikið: féllu af Ísrael þrjátíu þúsundir fótgangandi manna.

11 Og Guðs örk var tekin, og báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, létu lífið.

12 Benjamíníti nokkur hljóp úr orustunni og kom til Síló þennan sama dag í rifnum klæðum og með mold á höfði sér.

13 Og er hann kom, sjá, þá sat Elí á stól við hliðið og starði út á veginn, því að hann var hugsjúkur um örk Guðs. Og er maðurinn kom að segja þessi tíðindi í borginni, þá tók öll borgin að kveina.

14 En er Elí heyrði óminn af harmakveininu, sagði hann: "Hvað merkir þessi háreysti?" Og maðurinn hraðaði sér og kom og sagði Elí tíðindin.

15 En Elí var níutíu og átta ára gamall og augu hans stirðnuð, svo að hann mátti ekki sjá.

16 Og maðurinn sagði við Elí: "Ég kem úr orustunni, ég flýði í dag úr orustunni." Þá sagði Elí: "Hvernig hefir það gengið, sonur minn?"

17 Maðurinn, sem tíðindin flutti, svaraði og mælti: "Ísrael er flúinn fyrir Filistum, og líka var mikið mannfall meðal fólksins, og einnig eru báðir synir þínir, þeir Hofní og Pínehas, dauðir, og Guðs örk er tekin."

18 En er hann nefndi Guðs örk, þá féll Elí aftur á bak úr stólnum við hliðið og hálsbrotnaði, og varð það hans bani, því að hann var gamall maður og þungur. En hann hafði verið dómari í Ísrael í fjörutíu ár.

19 Tengdadóttir hans, kona Pínehasar, var þunguð og komin að falli, og er hún heyrði tíðindin, að Guðs örk væri tekin og tengdafaðir hennar og maður dauðir, þá hné hún niður og fæddi, því að jóðsóttin kom yfir hana.

20 En er hún var komin í dauðann, sögðu konurnar, er yfir henni stóðu: "Óttast ekki, því að þú hefir son fætt." En hún svaraði engu og gaf því engan gaum,

21 heldur nefndi sveininn Íkabóð og sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael" _ vegna þess að Guðs örk var tekin, og vegna tengdaföður síns og manns síns.

22 Hún sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael, því að Guðs örk er tekin."

Fyrra almenna bréf Péturs 4:7-19

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.

Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.

Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.

10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.

11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.

13 Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.

14 Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.

15 Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.

16 En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.

17 Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?

18 Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda?

19 Þess vegna skulu þeir, sem líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society