Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
18 Þegar sveinninn var kominn á legg, gekk hann einn dag til föður síns, út til kornskurðarmannanna.
19 Þá sagði hann við föður sinn: "Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér!" En faðir hans sagði við svein sinn: "Ber þú hann til móður sinnar."
20 Og hann tók hann og færði hann móður hans, og hann sat í kjöltu hennar til hádegis, þá dó hann.
21 Þá gekk hún upp, lagði hann í rekkju guðsmannsins, lokaði að honum og gekk burt.
22 Þá kallaði hún á mann sinn og sagði við hann: "Send þú mér einn af sveinunum og eina ösnu. Ég ætla sem skjótast að fara til fundar við guðsmanninn og koma síðan aftur."
23 En hann mælti: "Hvers vegna ætlar þú að fara til hans í dag? Það er hvorki tunglkomudagur né hvíldardagur." Hún mælti: "Það gjörir ekkert til!"
24 Síðan söðlaði hún ösnuna og sagði við svein sinn: "Rektu nú hart! Linaðu eigi á, uns ég segi þér."
25 Síðan fór hún og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. En er guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Þetta er konan frá Súnem!
26 Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: ,Hvernig líður þér, hvernig líður manni þínum, hvernig líður drengnum?"` Hún svaraði: "Okkur líður vel."
27 En er hún kom á fjallið til guðsmannsins, tók hún um fætur honum. Þá gekk Gehasí að og vildi hrinda henni frá. En guðsmaðurinn mælti: "Láttu hana vera, því að hún er harmþrungin mjög, og Drottinn hefir leynt mig því og eigi látið mig vita það."
28 Þá mælti hún: "Hefi ég beðið herra minn um son? Sagði ég ekki: ,Drag mig ekki á tálar?"`
29 Þá sagði hann við Gehasí: "Gyrð þú lendar þínar, tak staf minn í hönd þér og far af stað. Þó að einhver mæti þér, þá heilsaðu honum ekki, og þó að einhver heilsi þér, þá taktu ekki undir við hann, og legg staf minn yfir andlit sveinsins."
30 En móðir sveinsins mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, þá fer ég ekki frá þér." Stóð hann þá upp og fór með henni.
31 Gehasí var farinn á undan þeim og hafði lagt stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var steinhljóð og ekkert lífsmark. Þá sneri hann við í móti honum og sagði honum svo frá: "Ekki vaknar sveinninn!"
32 Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans.
33 Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins.
34 Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins.
35 Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum.
36 Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: "Tak við syni þínum!"
37 Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt.
2 Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda,
2 sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.
3 Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.
4 En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss,
5 hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir.
6 Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum.
7 Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.
8 Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.
9 Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.
10 Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.
by Icelandic Bible Society