Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2 Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!
3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?
4 En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.
5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.
6 Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.
7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.
8 Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.
1 Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir.
2 Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur,
3 þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann.
8 En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð. Lúk upp munni þínum og et það, er ég fæ þér."
9 Ég sá þá, að hönd var út rétt móti mér. Í henni var bókrolla.
10 Og hann rakti hana sundur fyrir mér, og var hún rituð bæði utan og innan, og voru á hana rituð harmljóð, andvörp og kveinstafir.
3 Og hann sagði við mig: "Mannsson, et bókrollu þessa, far síðan og tala til Ísraelsmanna!"
2 Þá upplauk ég munni mínum, en hann fékk mér bókrolluna að eta
3 og sagði við mig: "Þú mannsson, þú skalt renna henni niður í magann og fylla kvið þinn með bókrollu þeirri, er ég fæ þér." Og ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hunang.
10 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar.
2 Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni.
3 Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum.
4 Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: "Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki."
5 Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins
6 og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða,
7 en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.
8 Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: "Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni."
9 Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: "Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang."
10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum.
11 Þá segja þeir við mig: "Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga."
by Icelandic Bible Society