Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
17 Eftir þetta bar svo við, að sonur húsfreyju sýktist, og elnaði honum svo mjög sóttin, að hann dró eigi lengur andann.
18 Þá mælti hún við Elía: "Hvað á ég saman við þig að sælda, guðsmaður? Þú ert til mín kominn til að minna á misgjörð mína og til að láta son minn deyja."
19 En Elía sagði við hana: "Fá þú mér son þinn." Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína.
20 Og hann kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, ætlar þú líka að fara svo illa með ekkjuna, sem ég gisti hjá, að láta son hennar deyja?"
21 Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!"
22 Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.
23 En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans. Og Elía mælti: "Sjá þú, sonur þinn er lifandi."
24 Þá sagði konan við Elía: "Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur."
7 Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis.
8 Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir.
9 Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp.
10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: "Verið stilltir, það er líf með honum."
11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott.
12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.
by Icelandic Bible Society