Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.
2 Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.
3 Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.
4 Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.
5 Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.
6 Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:
7 "Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.
8 Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]
9 Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!
10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.
11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.
12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.
13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.
14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,
15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.
16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.
17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."
29 Jakob hélt áfram ferð sinni og kom til lands austurbyggja.
2 Og er hann litaðist um, sjá, þá var þar brunnur á mörkinni, og sjá, þar lágu þrjár sauðahjarðir við hann, því að þeir voru vanir að vatna hjörðunum við þennan brunn. En steinn mikill lá yfir munna brunnsins.
3 Og er allar hjarðirnar voru þar saman reknar, veltu þeir steininum frá munna brunnsins og vötnuðu fénu, síðan létu þeir steininn aftur yfir munna brunnsins á sinn stað.
4 Þá sagði Jakob við þá: "Kæru bræður, hvaðan eruð þér?"
5 Þeir svöruðu: "Vér erum frá Harran." Og hann mælti til þeirra: "Þekkið þér Laban Nahorsson?" Þeir svöruðu: "Já, vér þekkjum hann."
6 Og hann mælti til þeirra: "Líður honum vel?" Þeir svöruðu: "Honum líður vel. Og sjá, þarna kemur Rakel dóttir hans með féð."
7 Og hann mælti: "Sjá, enn er mikið dags eftir og ekki kominn tími til að reka saman fénaðinn. Brynnið fénu, farið síðan og haldið því á haga."
8 Þeir svöruðu: "Það getum vér ekki fyrr en allar hjarðirnar eru saman reknar, þá velta þeir steininum frá munna brunnsins, og þá brynnum vér fénu."
9 Áður en hann hafði lokið tali sínu við þá, kom Rakel með féð, sem faðir hennar átti, því að hún sat hjá.
10 En er Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og fé Labans móðurbróður síns, þá fór hann til og velti steininum frá munna brunnsins og vatnaði fé Labans móðurbróður síns.
11 Og Jakob kyssti Rakel og tók að gráta hástöfum.
12 Og Jakob sagði Rakel, að hann væri frændi föður hennar og að hann væri sonur Rebekku. En hún hljóp og sagði þetta föður sínum.
13 En er Laban fékk fregnina um Jakob systurson sinn, gekk hann skjótlega á móti honum, faðmaði hann að sér og minntist við hann, og leiddi hann inn í hús sitt. En hann sagði Laban alla sögu sína.
14 Þá sagði Laban við hann: "Sannlega ert þú hold mitt og bein!" Og hann var hjá honum heilan mánuð.
10 Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið.
2 Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu.
3 Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu
4 og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur.
by Icelandic Bible Society