Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
2 Guð talaði við Móse og sagði við hann: "Ég er Drottinn!
3 Ég birtist Abraham, Ísak og Jakob sem Almáttugur Guð, en undir nafninu Drottinn hefi ég eigi opinberast þeim.
4 Ég gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem útlendingar.
5 Ég hefi og heyrt kveinstafi Ísraelsmanna, sem Egyptar hafa að þrælum gjört, og ég hefi minnst sáttmála míns.
6 Seg því Ísraelsmönnum: ,Ég er Drottinn. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum.
7 Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Guð, og þér skuluð reyna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem leysi yður undan ánauð Egypta.
8 Og ég vil leiða yður inn í það land, sem ég sór að gefa Abraham, Ísak og Jakob, og ég vil gefa yður það til eignar. Ég er Drottinn."`
9 Móse sagði Ísraelsmönnum þetta, en þeir sinntu honum ekki sökum hugleysis og vegna hins stranga þrældóms.
8 Höfuðinntak þess, sem sagt hefur verið, er þetta: Vér höfum þann æðsta prest, er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum.
2 Hann er helgiþjónn helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem Drottinn reisti, en eigi maður.
3 Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera.
4 Væri hann nú á jörðu, mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem þeir eru fyrir, sem samkvæmt lögmálinu bera fram gjafirnar.
5 En þeir þjóna eftirmynd og skugga hins himneska, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði, er hann var að koma upp tjaldbúðinni: "Gæt þess," segir hann, "að þú gjörir allt eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu."
6 En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum.
7 Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan.
by Icelandic Bible Society