Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
34 Þá skal landið fá hvíldarár sín bætt upp alla þá stund, sem það er í eyði og þér eruð í landi óvina yðar. Þá skal landið hvílast og bæta upp hvíldarár sín.
35 Alla þá stund, sem það er í eyði, skal það njóta hvíldar, þeirrar hvíldar, sem það eigi naut á hvíldarárum yðar, er þér bjugguð í því.
36 Og þá af yður, sem eftir verða, vil ég gjöra svo huglausa í löndum óvina þeirra, að þyturinn af fjúkandi laufblaði skal reka þá á flótta og þeir flýja eins og menn flýja undan sverði, og þeir skulu falla, þó að enginn elti.
37 Og þeir skulu hrasa hver um annan, eins og flýja skyldi undan sverði, þó að enginn elti, og þér skuluð eigi fá staðist fyrir óvinum yðar.
38 Og þér skuluð farast meðal þjóðanna, og land óvina yðar skal upp eta yður.
39 Og þeir af yður, sem eftir verða, skulu fyrir sakir misgjörðar sinnar veslast upp í löndum óvina yðar, og þeir skulu veslast upp sakir misgjörða feðra sinna eins og þeir.
40 Þá munu þeir játa misgjörð sína og misgjörð feðra sinna, er þeir frömdu með því að rjúfa tryggðir við mig, og hversu þeir hafa gengið í gegn mér _
41 fyrir því gekk ég og í gegn þeim og flutti þá í land óvina þeirra _, já, þá mun óumskorið hjarta þeirra auðmýkja sig og þeir fá misgjörð sína bætta upp.
42 Og þá vil ég minnast sáttmála míns við Jakob, og sáttmála míns við Ísak og sáttmála míns við Abraham vil ég einnig minnast, og landsins vil ég minnast.
43 Og landið skal verða yfirgefið af þeim og fá hvíldarár sín bætt upp, meðan það er í eyði og þeir eru á brottu, og þeir skulu fá misgjörð sína bætta upp fyrir þá sök og vegna þess, að þeir höfnuðu lögum mínum og sál þeirra hafði óbeit á setningum mínum.
44 En jafnvel þá, er þeir eru í landi óvina sinna, hafna ég þeim ekki og býður mér ekki við þeim, svo að ég vilji aleyða þeim og rjúfa þannig sáttmála minn við þá, því að ég er Drottinn, Guð þeirra.
45 Og sökum þeirra vil ég minnast sáttmálans við forfeður þeirra, er ég leiddi út af Egyptalandi í augsýn þjóðanna til þess að vera Guð þeirra. Ég er Drottinn."
46 Þetta eru setningar þær, ákvæði og lög, sem Drottinn setti milli sín og Ísraelsmanna á Sínaífjalli fyrir Móse.
7 Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.
8 Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.
10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls.
11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.
12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans.
13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda.
14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.
15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.
16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.
17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.
by Icelandic Bible Society