Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
2 Naomí átti þar frænda manns síns, ríkan mann af ætt Elímeleks, og hét hann Bóas.
2 Og Rut hin móabítíska sagði við Naomí: "Ég ætla að fara út á akurinn og tína upp öx á eftir einhverjum þeim, er kann að sýna mér velvild." Naomí svaraði henni: "Far, þú, dóttir mín!"
3 Rut fór og tíndi á akrinum á eftir kornskurðarmönnunum, og henni vildi svo vel til, að teig þennan átti Bóas, sem var í ætt við Elímelek.
4 Og sjá, Bóas kom frá Betlehem og sagði við kornskurðarmennina: "Drottinn sé með yður!" Þeir svöruðu: "Drottinn blessi þig!"
5 Bóas mælti við þjón sinn, sem settur var yfir kornskurðarmennina: "Hverjum heyrir þessi stúlka til?"
6 Þjónninn, sem settur var yfir kornskurðarmennina, svaraði og sagði: "Það er móabítísk stúlka, sú sem kom aftur með Naomí frá Móabslandi.
7 Hún sagði: ,Leyf mér að tína upp og safna saman meðal bundinanna á eftir kornskurðarmönnunum.` Og hún kom og hefir verið að frá því í morgun og þangað til nú og hefir ekki gefið sér neinn tíma til að hvíla sig."
8 Þá sagði Bóas við Rut: "Heyr þú, dóttir mín! Far þú ekki á annan akur til þess að tína, og far þú heldur ekki héðan, en haltu þig hér hjá stúlkum mínum.
9 Gef þú gætur að þeim akri, þar sem kornskurðarmennirnir skera upp, og gakk þú á eftir þeim. Ég hefi boðið piltunum að amast ekki við þér. Og ef þig þyrstir, þá gakk að ílátunum og drekk af því, sem piltarnir ausa."
10 Þá féll hún fram á ásjónu sína og laut niður að jörðu og sagði við hann: "Hvers vegna sýnir þú mér þá velvild að víkja mér góðu, þar sem ég þó er útlendingur?"
11 Bóas svaraði og sagði við hana: "Mér hefir verið sagt allt af því, hvernig þér hefir farist við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, og að þú hefir yfirgefið föður þinn og móður og ættland þitt og farið til fólks, sem þú þekktir ekki áður.
12 Drottinn umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af Drottni, Ísraels Guði, þar sem þú ert komin að leita skjóls undir vængjum hans."
13 Rut sagði: "Ó, að ég mætti finna náð í augum þínum, herra minn, því að þú hefir huggað mig og talað vinsamlega við ambátt þína, og er ég þó ekki einu sinni jafningi ambátta þinna."
14 Er matmálstími kom, sagði Bóas við hana: "Kom þú hingað og et af brauðinu og dýf bita þínum í vínediksblönduna." Þá settist hún hjá kornskurðarmönnunum, og hann rétti henni bakað korn, og hún át sig sadda og leifði.
15 Síðan stóð hún upp og fór að tína. Þá lagði Bóas svo fyrir pilta sína: "Hún má einnig tína millum bundinanna, og gjörið henni ekkert mein
16 og dragið jafnvel öx út úr hnippunum handa henni og látið eftir liggja, svo að hún megi tína, og eigi skuluð þér atyrða hana."
5 Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma.
2 Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin,
3 gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum.
4 Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.
5 Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.
6 Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.
by Icelandic Bible Society