Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
4 Heyr þú nú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég kenni yður, til þess að þér haldið þau, svo að þér megið lifa og komast inn í það land, sem Drottinn, Guð feðra yðar, gefur yður, og fá það til eignar.
2 Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir Drottins Guðs yðar, sem ég legg fyrir yður.
3 Þér hafið séð með eigin augum, hvað Drottinn gjörði sakir Baal Peór, því að öllum þeim mönnum, sem fylgdu Baal Peór, eyddi Drottinn Guð þinn úr samfélagi yðar.
4 En þér, sem hélduð yður fast við Drottin Guð yðar, lifið allir fram á þennan dag.
5 Sjá, ég hefi kennt yður lög og ákvæði, eins og Drottinn Guð minn lagði fyrir mig, til þess að þér breytið eftir þeim í því landi, sem þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar.
6 Varðveitið þau því og haldið þau, því að það mun koma á yður orði hjá öðrum þjóðum fyrir visku og skynsemi. Þegar þær heyra öll þessi lög, munu þær segja: "Það er vissulega viturt og skynsamt fólk, þessi mikla þjóð."
7 Því að hvaða stórþjóð er til, sem hafi guð, er henni sé eins nálægur eins og Drottinn Guð vor er oss, hvenær sem vér áköllum hann?
8 Og hver er sú stórþjóð, er hafi svo réttlát lög og ákvæði, eins og allt þetta lögmál er, sem ég legg fyrir yður í dag?
9 En vara þig og gæt vandlega sálar þinnar, að eigi gleymir þú þeim hlutum, sem þú hefir séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni alla ævidaga þína, og þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum.
10 Gleym þú eigi deginum, þegar þú stóðst frammi fyrir Drottni Guði þínum hjá Hóreb, og Drottinn sagði við mig: "Safna þú lýðnum saman fyrir mig. Ég ætla að láta þá heyra orð mín, svo að þeir læri að óttast mig alla þá daga, sem þeir lifa á jörðinni, og kenni það einnig börnum sínum."
11 Þér komuð þá fram og námuð staðar undir fjallinu, en fjallið logaði allt í eldi upp í háan himin. Fylgdi því myrkur, ský og sorti.
12 Og Drottinn talaði við yður út úr eldinum. Hljóm orðanna heyrðuð þér, en mynd sáuð þér enga, þér heyrðuð aðeins hljóminn.
13 Þá birti hann yður sáttmála sinn, sem hann bauð yður að halda, tíu boðorðin, og hann reit þau á tvær steintöflur.
14 Þá bauð Drottinn mér að kenna yður lög og ákvæði, svo að þér gætuð breytt eftir þeim í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar.
5 Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans.
2 Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.
3 Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,
4 því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.
5 Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?
by Icelandic Bible Society