Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
23 Þá sendi konungur út menn til þess að safna til sín öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.
2 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn, bæði ungir og gamlir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.
3 Og konungur gekk að súlunni og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta og af allri sálu til þess að fullnægja þannig orðum sáttmála þessa, þau er rituð voru í þessari bók. Og allur lýðurinn gekkst undir sáttmálann.
4 Síðan bauð konungur Hilkía æðsta presti og óæðri prestunum og dyravörðunum að taka burt úr aðalhúsi musteris Drottins öll áhöld, þau er gjörð höfðu verið handa Baal og Aséru og öllum himinsins her. Og hann lét brenna þau fyrir utan Jerúsalem á Kídronvöllum, og askan af þeim var flutt til Betel.
5 Hann rak og burt skurðgoðaprestana, er Júdakonungar höfðu skipað og fært höfðu reykelsisfórnir á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grenndinni við Jerúsalem, svo og þá er fært höfðu Baal fórnir og sólinni, tunglinu, stjörnumerkjunum og öllum himinsins her.
6 Hann lét flytja aséruna burt úr musteri Drottins, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hana í Kídrondal, muldi hana mjölinu smærra og stráði duftinu á grafir múgamanna.
7 Þá braut hann og niður hús þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði, þau er voru við musteri Drottins, þar sem konur ófu hjúpa á aséruna.
8 Hann lét alla presta koma frá borgunum í Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar, þar sem prestarnir höfðu fórnað, frá Geba til Beerseba. Hann braut og niður hæðir hafurlíkneskjanna, sem stóðu úti fyrir hliði Jósúa borgarstjóra, en það er á vinstri hönd, þá er inn er gengið um borgarhliðið.
21 Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: "Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari."
22 Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga,
23 en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem.
24 Enn fremur eyddi Jósía þeim mönnum, er höfðu þjónustuanda, svo og spásagnamönnum, húsgoðum og skurðgoðum og öllum þeim viðurstyggðum, er sáust í Júda og Jerúsalem, til þess að fullnægja fyrirmælum lögmálsins, þeim er rituð voru í bókinni, sem Hilkía prestur hafði fundið í musteri Drottins.
25 Og hans maki hafði enginn konungur verið á undan honum, er svo hafði snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum, alveg eftir lögmáli Móse, og eftir hann kom enginn honum líkur.
4 Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.
2 Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.
3 En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.
4 Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.
5 Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.
6 Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.
7 En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.
8 Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,
9 ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.
10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.
11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.
12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.
by Icelandic Bible Society