Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
8 Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi:
2 Svo segir Drottinn allsherjar: Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar og er upptendraður af mikilli reiði hennar vegna.
3 Svo segir Drottinn: Ég er á afturleið til Síonar og mun taka mér bólfestu í Jerúsalem miðri. Og Jerúsalem mun nefnd verða borgin trúfasta og fjall Drottins allsherjar fjallið helga.
4 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu gamlir menn og gamlar konur sitja á torgum Jerúsalem og hvert þeirra hafa staf í hendi sér fyrir elli sakir.
5 Og torg borgarinnar munu full vera af drengjum og stúlkum, sem leika sér þar á torgunum.
6 Svo segir Drottinn allsherjar: Þótt það sé furðuverk í augum þeirra, sem eftir verða af þessum lýð á þeim dögum, hvort mun það og vera furðuverk í mínum augum? _ segir Drottinn allsherjar.
7 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég mun frelsa lýð minn úr landi sólarupprásarinnar og úr landi sólsetursins,
8 og ég mun flytja þá heim og þeir skulu búa í Jerúsalem miðri, og þeir skulu vera minn lýður og ég skal vera þeirra Guð í trúfesti og réttlæti.
9 Svo segir Drottinn allsherjar: Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru, er undirstöðusteinninn var lagður til þess að endurreisa hús Drottins allsherjar, musterið.
10 Því að fyrir þann tíma varð enginn arður af erfiði mannanna og enginn arður af vinnu skepnanna, og enginn var óhultur fyrir óvinum, hvort heldur hann gekk út eða kom heim, og ég hleypti öllum mönnum upp, hverjum á móti öðrum.
11 En nú stend ég öðruvísi gagnvart leifum þessa lýðs en í fyrri daga _ segir Drottinn allsherjar _
12 því að sáðkorn þeirra verða ósködduð. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar.
13 Og eins og þér, Júda hús og Ísraels hús, hafið verið hafðir að formæling meðal þjóðanna, eins vil ég nú svo hjálpa yður, að þér verðið hafðir að blessunaróskum. Óttist ekki, verið hughraustir.
14 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eins og ég ásetti mér að gjöra yður illt, þá er feður yðar reittu mig til reiði _ segir Drottinn allsherjar _ og lét mig ekki iðra þess,
15 eins hefi ég nú aftur ásett mér á þessum dögum að gjöra vel við Jerúsalem og Júda hús. Óttist ekki!
16 Þetta er það sem yður ber að gjöra: Talið sannleika hver við annan og dæmið ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar.
17 Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum. Því að allt slíkt hata ég _ segir Drottinn.
14 Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita.
15 Hann snart hönd hennar, og sótthitinn fór úr henni. Hún reis á fætur og gekk honum fyrir beina.
16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.
17 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: "Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora."
28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara.
29 Þeir æpa: "Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?"
30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit.
31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: "Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina."
32 Hann sagði: "Farið!" Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar.
33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum.
34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.
by Icelandic Bible Society