Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 146:5-10

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

Rutarbók 4:13-17

13 Síðan gekk Bóas að eiga Rut, og hún varð kona hans. Og hann gekk inn til hennar, og Drottinn veitti henni getnað, og ól hún son.

14 Þá sögðu konurnar við Naomí: "Lofaður sé Drottinn, sem eigi hefir látið þig bresta lausnarmann í dag, svo að nafn hans mun nefnt verða í Ísrael.

15 Hann mun verða huggun þín og ellistoð, því að tengdadóttir þín, sem elskar þig, hefir alið hann, hún, sem er þér betri en sjö synir."

16 Naomí tók barnið og lagði það á skaut sér og varð fóstra þess.

17 Og grannkonurnar gáfu honum nafn og sögðu: "Naomí er fæddur sonur!" og nefndu hann Óbeð. Hann var faðir Ísaí, föður Davíðs.

Síðara almenna bréf Péturs 3:11-17

11 Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni,

12 þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.

13 En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.

14 Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.

15 Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin.

16 Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar.

17 Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society