Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
35 Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja.
2 Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors.
3 Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné!
4 Segið hinum ístöðulausu: "Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður."
5 Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu.
6 Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.
7 Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.
8 Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar.
9 Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar.
10 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,
47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,
53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.
7 Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn.
8 Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.
9 Kvartið ekki hver yfir öðrum, bræður, svo að þér verðið ekki dæmdir. Dómarinn stendur fyrir dyrum.
10 Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði.
2 Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:
3 "Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"
4 Jesús svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:
5 Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.
6 Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."
7 Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?
8 Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.
9 Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.
10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.
11 Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.
by Icelandic Bible Society