Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.
2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.
3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,
4 því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]
7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"
9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.
10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.
11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,
13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]
15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.
17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.
18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.
9 Elísa spámaður kallaði einn af spámannasveinunum og sagði við hann: "Gyrð þú lendar þínar, tak þessa flösku af olífuolíu með þér og far til Ramót í Gíleað.
2 Og er þú ert þangað kominn, skalt þú svipast þar um eftir Jehú Jósafatssyni, Nimsísonar. Gakk síðan til hans og bið hann standa upp frá félögum sínum og far með hann inn í innsta herbergið.
3 Því næst skalt þú hella olífuolíunni yfir höfuð honum og segja: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.` Opna þú síðan dyrnar og flýt þér burt og dvel eigi."
4 Fór þá sveinninn, sveinn spámannsins, til Ramót í Gíleað.
5 En er hann kom þangað, sátu herforingjarnir þar saman. Og hann mælti: "Ég á erindi við þig, herforingi!" Jehú svaraði: "Við hvern af oss?" Hann svaraði: "Við þig, herforingi!"
6 Þá stóð hann upp og gekk inn í húsið. Og hann hellti olíu yfir höfuð honum og sagði við hann: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég smyr þig til konungs yfir lýð Drottins, yfir Ísrael.
7 Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna Drottins.
8 Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast, og ég mun uppræta fyrir Akabsætt hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael.
9 Og ég mun fara með ætt Akabs eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar.
10 En Jesebel skulu hundar eta í landareign Jesreelborgar, og enginn skal jarða hana." Síðan lauk hann upp hurðinni og flýtti sér burt.
11 En er Jehú kom út til þjóna herra síns, sögðu þeir við hann: "Er nokkuð að? Hvers vegna er þessi vitfirringur til þín kominn?" Hann svaraði þeim: "Þér þekkið manninn og tal hans."
12 Þá sögðu þeir: "Það er ósatt mál! Seg oss það." Þá sagði hann: "Svo og svo hefir hann við mig talað og sagt: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael."`
13 Þá tóku þeir í skyndi hver sína yfirhöfn og lögðu fyrir fætur honum á sjálfar tröppurnar, þeyttu lúðurinn og hrópuðu: "Jehú er konungur orðinn!"
18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs.
19 Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.
20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?
21 Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.
22 Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki,
23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,
24 en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.
25 Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.
26 Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.
27 En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.
28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er,
29 til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.
30 Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn.
31 Eins og ritað er: "Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni."
by Icelandic Bible Society