Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Heyr, spekin kallar og hyggnin lætur raust sína gjalla.
2 Uppi á hæðunum við veginn, þar sem göturnar kvíslast _ stendur hún.
3 Við hliðin, þar sem gengið er út úr borginni, þar sem gengið er inn um dyrnar, kallar hún hátt:
4 Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna.
22 Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli.
23 Frá eilífð var ég sett til valda, frá upphafi, áður en jörðin var til.
24 Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til, þá er engar vatnsmiklar lindir voru til.
25 Áður en fjöllunum var hleypt niður, á undan hæðunum fæddist ég,
26 áður en hann skapaði völl og vengi og fyrstu moldarkekki jarðríkis.
27 Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið,
28 þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður,
29 þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar.
30 Þá stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma,
31 leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum.
8 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
5 Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist.
2 Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs.
3 En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði,
4 en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von.
5 En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.
12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.
13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.
14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.
15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.
by Icelandic Bible Society