Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Akab sagði Jesebel frá öllu því, sem Elía hafði gjört og hversu hann hafði drepið alla spámennina með sverði.
2 Þá sendi hún mann á fund Elía og lét segja honum: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja nú og síðar: Á morgun í þetta mund skal ég fara svo með líf þitt, sem farið hefir verið með líf sérhvers þeirra."
3 Þá varð hann hræddur, tók sig upp og hélt af stað til þess að forða lífi sínu. Hann kom til Beerseba, sem er í Júda. Þar lét hann eftir svein sinn.
4 En sjálfur fór hann eina dagleið á eyðimörku og kom þar sem gýfilrunnur var og settist undir hann. Þá óskaði hann sér að hann mætti deyja og mælti: "Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt, því að mér er eigi vandara um en feðrum mínum."
5 Síðan lagðist hann fyrir undir gýfilrunninum og sofnaði. Og sjá, engill snart hann og mælti til hans: "Statt upp og et."
6 Litaðist hann þá um og sá, að eldbökuð kaka lá að höfði honum og vatnskrús. Át hann þá og drakk og lagðist síðan aftur fyrir.
7 En engill Drottins kom aftur öðru sinni, snart hann og mælti: "Statt upp og et, því að annars verður leiðin þér of löng."
8 Stóð hann þá upp, át og drakk og hélt áfram fyrir kraft fæðunnar fjörutíu daga og fjörutíu nætur, uns hann kom að Hóreb, fjalli Guðs.
9 Þar gekk hann inn í helli og hafðist þar við um nóttina. Þá kom orð Drottins til hans: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"
10 Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt."
11 Þá sagði Drottinn: "Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér." Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum.
12 Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla.
13 Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"
14 Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt."
15 En Drottinn sagði við hann: "Far þú aftur leiðar þinnar til Damaskuseyðimerkur og far inn í borgina og smyr Hasael til konungs yfir Sýrland.
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
23 Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist.
24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.
25 En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.
26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.
27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.
28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.
29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.
26 Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu.
27 Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum.
28 Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!"
29 Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir.
30 Jesús spurði hann: "Hvað heitir þú?" En hann sagði: "Hersing", því að margir illir andar höfðu farið í hann.
31 Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið.
32 En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það.
33 Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði.
34 En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni.
35 Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir.
36 Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill.
37 Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur.
38 Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti:
39 "Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört." Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört.
by Icelandic Bible Society