Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
14 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
15 "Mannsson, um bræður þína, bræður þína, þá menn, er með þér voru herleiddir, og gjörvallan Ísraels lýð, segja Jerúsalembúar: ,Þeir eru langt í burtu frá Drottni, oss er landið gefið til eignar!`
16 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Já, ég hefi rekið þá langt burt til heiðinna þjóða og dreift þeim út um löndin, og ég varð þeim skamma hríð að helgidómi í löndum þeim, sem þeir eru komnir til.
17 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Ég vil safna yður saman frá þjóðunum og stefna yður saman frá löndunum, þangað sem yður var dreift, og gefa yður Ísraelsland.
18 Þangað munu þeir komast og útrýma þaðan öllum viðurstyggðum þess og öllum svívirðingum þess.
19 Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi,
20 til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.
21 En þessir _ hjarta þeirra eltir viðurstyggðir þeirra og andstyggðir. Ég skal láta athæfi þeirra koma þeim í koll, segir Drottinn Guð."
22 Nú hófu kerúbarnir vængi sína og hjólin færðust til samtímis þeim, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim.
23 Og dýrð Drottins hóf sig upp frá borginni og staðnæmdist á fjallinu, sem er fyrir austan borgina.
24 Og andinn hóf mig upp og flutti mig í sýninni, fyrir Guðs anda, til hinna herleiddu í Kaldealandi. Og sýnin, sem ég hafði séð, leið upp frá mér.
25 Því næst flutti ég hinum herleiddu öll orð Drottins, þau er hann hafði birt mér.
12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.
13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.
14 Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.
15 En hinn andlegi dæmir um allt, en um hann sjálfan verður ekki dæmt af neinum.
16 Því að hver hefur þekkt huga Drottins, að hann geti frætt hann? En vér höfum huga Krists.
by Icelandic Bible Society