Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.
2 Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
3 Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
4 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.
5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?
6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.
4 Ein af konum spámannasveinanna kallaði til Elísa og mælti: "Þjónn þinn, maðurinn minn, er dáinn, og þú veist, að þjónn þinn óttaðist Drottin. Nú er lánssalinn kominn til að taka báða drengina mína sér að þrælum."
2 En Elísa sagði við hana: "Hvað á ég að gjöra fyrir þig? Seg þú mér, hvað þú átt til heima." Hún svaraði: "Ambátt þín á ekkert til heima, nema krús með olífuolíu."
3 Þá mælti hann: "Far þú þá og fá til láns ílát utan húss hjá öllum nágrönnum þínum, tóm ílát, og heldur fleiri en færri.
4 Gakk því næst inn og loka dyrunum á eftir þér og sonum þínum og hell í öll þessi ílát og set þau frá þér jafnóðum og þau fyllast."
5 Gekk hún þá burt frá honum. Og hún lokaði dyrunum á eftir sér og sonum sínum. Þeir báru að henni, en hún hellti í.
6 En er ílátin voru full, sagði hún við son sinn: "Fær mér enn ílát." Hann sagði við hana: "Það er ekkert ílát eftir." Þá hætti olífuolían að renna.
7 Fór hún þá og sagði guðsmanninum frá, en hann sagði: "Far þú nú og sel olíuna og gjald skuld þína, en haf til viðurlífis þér og sonum þínum það, sem afgangs verður."
10 Postularnir komu aftur og skýrðu Jesú frá öllu því, er þeir höfðu gjört, en hann tók þá með sér og vék brott til bæjar, sem heitir Betsaída, að þeir væru einir saman.
11 Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu.
12 Nú tók degi að halla. Komu þá þeir tólf að máli við hann og sögðu: "Lát þú mannfjöldann fara, að þeir geti náð til þorpa og býla hér í kring og náttað sig og fengið mat, því að hér erum vér á óbyggðum stað."
13 En hann sagði við þá: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svöruðu: "Vér eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska, nema þá vér förum og kaupum vistir handa öllu þessu fólki."
14 En þar voru um fimm þúsund karlmenn. Hann sagði þá við lærisveina sína: "Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum."
15 Þeir gjörðu svo og létu alla setjast.
16 En hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði fyrir þau og braut og gaf lærisveinunum að bera fram fyrir mannfjöldann.
17 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. En leifarnar eftir þá voru teknar saman, tólf körfur brauðbita.
by Icelandic Bible Society