Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
9 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Í dag hefi ég velt af yður brigsli Egypta!" Fyrir því heitir þessi staður Gilgal fram á þennan dag.
10 Þegar Ísraelsmenn höfðu sett búðir sínar í Gilgal, héldu þeir páska á Jeríkóvöllum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, að kveldi.
11 Og daginn eftir páska átu þeir ósýrð brauð og bakað korn af gróðri landsins, einmitt þennan dag.
12 Daginn eftir þraut manna, er þeir átu af gróðri landsins, og upp frá því fengu Ísraelsmenn ekki manna, heldur átu þeir af gróðri Kanaanlands það árið.
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.
17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.
18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.
19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.
20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.
21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.
15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,
2 en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."
3 En hann sagði þeim þessa dæmisögu:
11 Enn sagði hann: "Maður nokkur átti tvo sonu.
12 Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ,Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.` Og hann skipti með þeim eigum sínum.
13 Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði.
14 En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort.
15 Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína.
16 Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.
17 En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ,Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri!
18 Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.
19 Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.`
20 Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.
21 En sonurinn sagði við hann: ,Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.`
22 Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ,Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum.
23 Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.
24 Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.` Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.
25 En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans.
26 Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera.
27 Hann svaraði: ,Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.`
28 Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma.
29 En hann svaraði föður sínum: ,Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum.
30 En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.`
31 Hann sagði þá við hann: ,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt.
32 En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn."`
by Icelandic Bible Society