Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jóel 2:1-2

Þeytið lúðurinn í Síon og æpið óp á mínu heilaga fjalli, svo að allir íbúar landsins nötri. Því að dagur Drottins kemur, já, hann er í nánd,

dagur myrkurs og dimmu, dagur skýþykknis og skýsorta. Eins og sorti breiðist yfir fjallahnjúkana mikil og voldug þjóð. Hennar líki hefir ekki verið frá eilífð, og hennar líki mun ekki koma eftir hana allt fram á ár ókominna alda.

Jóel 2:12-17

12 En snúið yður nú til mín _ segir Drottinn _ af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini.

13 Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar, og hverfið aftur til Drottins Guðs yðar, því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur og iðrast hins illa.

14 Hver veit nema hann iðrist aftur og láti blessun eftir sig: matfórn og dreypifórn handa Drottni, Guði yðar!

15 Þeytið lúðurinn í Síon, stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu.

16 Kveðjið saman lýðinn, helgið söfnuðinn, stefnið saman gamalmennum, safnið saman börnum og brjóstmylkingum. Brúðguminn gangi út úr herbergi sínu og brúðurin út úr brúðarsal sínum.

17 Milli forsals og altaris skulu prestarnir, þjónar Drottins, gráta og segja: "Þyrm þjóð þinni, Drottinn, og lát eigi arfleifð þína verða að spotti, svo að heiðingjarnir drottni yfir þeim. Hví skulu menn segja meðal þjóðanna: ,Hvar er Guð þeirra?"`

Jesaja 58:1-12

58 Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra!

Þeir leita mín dag frá degi og girnast að þekkja mína vegu. Þeir heimta af mér réttláta dóma og girnast það, að Guð komi til, eins og væru þeir þjóð, sem iðkar réttlæti og eigi víkur frá skipunum Guðs síns.

"Hví föstum vér, og þú sér það ekki? Hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki?" Sjá, daginn sem þér fastið fáist þér við störf yðar og þrælkið öll hjú yðar.

Sjá, þér fastið til þess að vekja deilur og þrætur og til þess að ljósta með ósvífnum hnefa. En þér fastið eigi í dag til þess að láta rödd yðar heyrast upp í hæðirnar.

Mun slíkt vera sú fasta, er mér líkar, sá dagur, er menn þjá sig? Að hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir Drottni?

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok,

það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.

Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: "Hér er ég!" Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum,

10 ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.

11 Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.

12 Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir.

Sálmarnir 51:1-17

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

Síðara bréf Páls til Kori 5:20-6:10

20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.

21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.

Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.

Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.

Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti.

Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist,

undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum,

með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika,

með sannleiksorði, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar,

í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi. Vér erum álitnir afvegaleiðendur, en erum sannorðir,

óþekktir, en þó alþekktir, komnir í dauðann og samt lifum vér, tyftaðir og þó ekki deyddir,

10 hryggir, en þó ávallt glaðir, fátækir, en auðgum þó marga, öreigar, en eigum þó allt.

Matteusarguðspjall 6:1-6

Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.

Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir,

svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Matteusarguðspjall 6:16-21

16 Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

17 En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt,

18 svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.

20 Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.

21 Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society