Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
28 Davíð stefndi til Jerúsalem öllum höfðingjum Ísraels, höfðingjum fyrir kynkvíslunum og flokkshöfðingjunum, þeim er konungi þjónuðu, þúsundhöfðingjunum og hundraðshöfðingjunum og ráðsmönnum yfir öllum eignum og fénaði konungs og sona hans, og auk þess hirðmönnunum og köppunum og öllum röskum mönnum.
2 Þá stóð Davíð konungur upp og mælti: "Hlustið á mig, þér bræður mínir og lýður minn! Ég hafði í hyggju að reisa hvíldarstað fyrir sáttmálsörk Drottins og fyrir fótskör Guðs vors, og dró að föng til byggingarinnar.
3 En Guð sagði við mig: ,Þú skalt eigi reisa hús nafni mínu, því að þú ert bardagamaður og hefir úthellt blóði.`
4 Drottinn Guð Ísraels kaus mig af allri ætt minni, að ég skyldi ævinlega vera konungur yfir Ísrael. Því að Júda hefir hann kjörið til þjóðhöfðingja, og í ættkvísl Júda ætt mína, og meðal sona föður míns þóknaðist honum að gjöra mig að konungi yfir öllum Ísrael.
5 Og af öllum sonum mínum _ því að Drottinn hefir gefið mér marga sonu _ kaus hann Salómon son minn, að hann skyldi sitja á konungsstóli Drottins yfir Ísrael.
6 Hann sagði við mig: ,Salómon sonur þinn, hann skal reisa musteri mitt og forgarða mína, því að hann hefi ég kjörið mér fyrir son, og ég vil vera honum faðir.
7 Og ég mun staðfesta konungdóm hans að eilífu, ef hann stöðugt heldur boð mín og fyrirskipanir, eins og nú.`
8 Og nú, að öllum Ísrael ásjáanda, frammi fyrir söfnuði Drottins og í áheyrn Guðs vors: Varðveitið kostgæfilega öll boðorð Drottins, Guðs yðar, að þér megið eiga þetta góða land og láta það ganga að erfðum til niðja yðar um aldur og ævi.
9 Og þú, Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar. Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig; ef þú yfirgefur hann, mun hann útskúfa þér um aldur.
10 Gæt nú að, því að Drottinn hefir kjörið þig til þess að reisa helgidómshús. Gakk öruggur að verki."
10 Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir.
11 Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.
12 En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm,
13 þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.
14 Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun.
15 Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi.
16 Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?
17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.
by Icelandic Bible Society