Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jesaja 11:1-9

11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.

Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.

Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.

Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.

Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.

Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.

Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.

Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.

Míka 4:8-13

En þú, varðturn hjarðmannsins, hæð dótturinnar Síon, til þín mun koma og aftur til þín hverfa hið forna veldi, konungdómur dótturinnar Jerúsalem.

Nú, hví hljóðar þú svo hástöfum? Hefir þú engan konung, eða er ráðgjafi þinn horfinn, úr því að kvalir grípa þig eins og jóðsjúka konu?

10 Fá þú hríðir og hljóða þú, dóttirin Síon, eins og jóðsjúk kona. Því að nú verður þú að fara út úr borginni og búa á víðavangi og fara alla leið til Babýlon. Þar munt þú frelsuð verða, þar mun Drottinn leysa þig undan valdi óvina þinna.

11 En nú hafa margar þjóðir safnast í móti þér, þær er segja: "Verði hún vanhelguð, svo að vér megum horfa hlakkandi á Síon!"

12 En þær þekkja ekki hugsanir Drottins og skilja ekki ráðsályktun hans, að hann hefir safnað þeim saman eins og kerfum á kornláfa.

13 Rís upp og þresk, dóttirin Síon, því að ég gjöri þér horn af járni og klaufir af eiri, svo að þú skalt sundur merja margar þjóðir. Og þú munt helga Drottni ránsfeng þeirra og fjárafla þeirra honum, sem er Drottinn allrar jarðarinnar.

Lúkasarguðspjall 7:31-35

31 "Við hvað á ég þá að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir?

32 Líkir eru þeir börnum, sem á torgi sitja og kallast á: ,Vér lékum fyrir yður á flautu, og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér gráta.`

33 Nú kom Jóhannes skírari, át ekki brauð né drakk vín, og þér segið: ,Hann hefur illan anda.`

34 Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur, og þér segið: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!`

35 En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society