Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 113

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Fyrsta bók Móse 25:19-28

19 Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar. Abraham gat Ísak.

20 Ísak var fertugur að aldri, er hann gekk að eiga Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan-aram, systur Labans hins arameíska.

21 Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, því að hún var óbyrja, og Drottinn bænheyrði hann, og Rebekka kona hans varð þunguð.

22 Og er börnin hnitluðust í kviði hennar, sagði hún: "Sé það svona, hví lifi ég þá?" Gekk hún þá til frétta við Drottin.

23 En Drottinn svaraði henni: Þú gengur með tvær þjóðir, og tveir ættleggir munu af skauti þínu kvíslast. Annar verður sterkari en hinn, og hinn eldri mun þjóna hinum yngri.

24 Er dagar hennar fullnuðust, að hún skyldi fæða, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar.

25 Og hinn fyrri kom í ljós, rauður að lit og allur sem loðfeldur, og var hann nefndur Esaú.

26 Og eftir það kom bróðir hans í ljós, og hélt hann um hælinn á Esaú, og var hann nefndur Jakob. En Ísak var sextíu ára, er hún ól þá.

27 Er sveinarnir voru vaxnir, gjörðist Esaú slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum, en Jakob var maður gæfur og bjó í tjöldum.

28 Og Ísak unni Esaú, því að villibráð þótti honum góð, en Rebekka unni Jakob.

Bréf Páls til Kólossumann 1:15-20

15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar.

16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.

17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum.

18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.

19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa

20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society