Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
3 Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné!
4 Segið hinum ístöðulausu: "Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður."
5 Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu.
6 Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.
7 Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.
18 Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum frá öllu þessu. Hann kallaði þá til sín tvo lærisveina sína,
19 sendi þá til Drottins og lét spyrja: "Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"
20 Mennirnir fóru til hans og sögðu: "Jóhannes skírari sendi okkur til þín og spyr: ,Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"`
21 Á þeirri stundu læknaði hann marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gaf mörgum blindum sýn.
22 Og hann svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.
23 Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."
24 Þá er sendimenn Jóhannesar voru burt farnir, tók hann að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?
25 Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, í konungssölum er þá að finna, sem skartklæðin bera og lifa í sællífi.
26 Hvað fóruð þér þá að sjá? Spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.
27 Hann er sá sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.
28 Ég segi yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes. En hinn minnsti í Guðs ríki er honum meiri."
29 Og allur lýðurinn, sem á hlýddi, og enda tollheimtumenn, viðurkenndu réttlæti Guðs og létu skírast af Jóhannesi.
30 En farísear og lögvitringar gjörðu að engu áform Guðs um þá og létu ekki skírast af honum.
by Icelandic Bible Society