Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum.
21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum, við borgarhliðin heldur hún tölur sínar:
22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði og heimskingjarnir að hata þekkingu?
23 Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.
24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina,
25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni,
26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður,
27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir yður.
28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig.
29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins,
30 skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína,
31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum.
32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá, og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.
33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
3 Verðið eigi margir kennarar, bræður mínir. Þér vitið, að vér munum fá þyngri dóm.
2 Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.
3 Ef vér leggjum hestunum beisli í munn, til þess að þeir hlýði oss, þá getum vér stýrt öllum líkama þeirra.
4 Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill.
5 Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi.
6 Tungan er líka eldur. Tungan er ranglætisheimur meðal lima vorra. Hún flekkar allan líkamann og kveikir í hjóli tilverunnar, en er sjálf tendruð af helvíti.
7 Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið,
8 en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju, sem er full af banvænu eitri.
9 Með henni vegsömum vér Drottin vorn og föður og með henni formælum vér mönnum, sem skapaðir eru í líkingu Guðs.
10 Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir.
11 Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn?
12 Mun fíkjutré, bræður mínir, geta af sér gefið olífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.
27 Jesús fór nú ásamt lærisveinum sínum til þorpanna hjá Sesareu Filippí. Á leiðinni spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn mig vera?"
28 Þeir svöruðu honum: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir einn af spámönnunum."
29 Og hann spurði þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði honum: "Þú ert Kristur."
30 Og hann lagði ríkt á við þá að segja engum frá sér.
31 Þá tók hann að kenna þeim: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa eftir þrjá daga."
32 Þetta sagði hann berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann.
33 Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: "Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."
34 Og hann kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði við þá: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.
35 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því.
36 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni?
37 Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?
38 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum."
by Icelandic Bible Society