Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
1 Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs,
2 til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð,
3 til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni,
4 til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni, _
5 hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur _
6 til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál, orð spekinganna og gátur þeirra.
7 Ótti Drottins er upphaf þekkingar, visku og aga fyrirlíta afglapar einir.
8 Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar,
9 því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn.
10 Son minn, þegar skálkar ginna þig, þá gegn þeim eigi.
11 Þegar þeir segja: "Kom með oss! Leggjumst í launsátur til manndrápa, sitjum án saka um saklausan mann,
12 gleypum þá lifandi eins og Hel _ með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima.
13 Alls konar dýra muni munum vér eignast, fylla hús vor rændum fjármunum.
14 Þú skalt taka jafnan hlut með oss, einn sjóð skulum vér allir hafa" _
15 son minn, þá haf ekki samleið við þá, halt fæti þínum frá stigum þeirra.
16 Því að fætur þeirra eru skjótir til ills og fljótir til að úthella blóði.
17 Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla,
18 og slíkir menn sitja um sitt eigið líf, liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.
19 Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rangfenginn gróða: fíknin verður þeim að fjörlesti.
2 Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.
2 Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja.
3 En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs?
4 Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?
5 Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber.
6 Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans:
7 Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika,
8 en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu.
9 Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska.
10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski.
11 Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.
by Icelandic Bible Society