Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
15 Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.
2 Af tungu hinna vitru drýpur þekking, en munnur heimskingjanna eys úr sér vitleysu.
3 Augu Drottins eru alls staðar, vakandi yfir vondum og góðum.
4 Hógværð tungunnar er lífstré, en fals hennar veldur hugarkvöl.
5 Afglapinn smáir aga föður síns, en sá sem tekur umvöndun, verður hygginn.
6 Í húsi hins réttláta er mikill auður, en glundroði er í gróðafé hins óguðlega.
7 Varir hinna vitru dreifa út þekkingu, en hjarta heimskingjanna er rangsnúið.
8 Fórn óguðlegra er Drottni andstyggð, en bæn hreinskilinna er honum þóknanleg.
9 Vegur hins óguðlega er Drottni andstyggilegur, en þann sem stundar réttlæti, elskar hann.
10 Slæm hirting bíður þess, sem yfirgefur rétta leið, sá sem hatar umvöndun, hlýtur að deyja.
11 Dánarheimur og undirdjúpin eru opin fyrir Drottni, hversu miklu fremur hjörtu mannanna barna!
12 Spottaranum er ekki vel við, að vandað sé um við hann, til viturra manna fer hann ekki.
13 Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt, en sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.
14 Hjarta hins vitra leitar að þekking, en munnur heimskingjanna gæðir sér á fíflsku.
15 Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.
16 Betra er lítið í ótta Drottins en mikill fjársjóður með áhyggjum.
17 Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri.
17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum.
18 Við hann hafði Guð mælt: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."
19 Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.
20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma.
21 Fyrir trú blessaði Jakob báða sonu Jósefs, er hann var að dauða kominn og "laut fram á stafshúninn og baðst fyrir".
22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelssona og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum.
by Icelandic Bible Society