Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 22:23-31

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

Fyrsta bók Móse 16:1-6

16 Saraí kona Abrams ól honum ekki börn. En hún hafði egypska ambátt, sem hét Hagar.

Og Saraí sagði við Abram: "Heyrðu, Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar. Gakk því inn til ambáttar minnar, vera má að hún afli mér afkvæmis." Og Abram hlýddi orðum Saraí.

Saraí, kona Abrams, tók Hagar hina egypsku, ambátt sína, er Abram hafði búið tíu ár í Kanaanlandi, og gaf manni sínum Abram hana fyrir konu.

Og hann gekk inn til Hagar, og hún varð þunguð. En er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína.

Þá sagði Saraí við Abram: "Sá óréttur, sem ég verð að þola, bitni á þér! Ég hefi gefið ambátt mína þér í faðm, en er hún nú veit, að hún er með barni, fyrirlítur hún mig. Drottinn dæmi milli mín og þín!"

En Abram sagði við Saraí: "Sjá, ambátt þín er á þínu valdi. Gjör þú við hana sem þér gott þykir." Þá þjáði Saraí hana, svo að hún flýði í burtu frá henni.

Bréf Páls til Rómverja 4:1-12

Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann?

Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði.

Því hvað segir ritningin: "Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis."

Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika.

Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis.

Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka:

Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar.

Sæll er sá maður, sem Drottinn tilreiknar ekki synd.

Nær þá sæluboðun þessi aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Vér segjum: "Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð."

10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Hann var ekki umskorinn, heldur óumskorinn.

11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem staðfestingu þess réttlætis af trú, sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim,

12 og eins faðir þeirra umskornu manna, sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society