Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Jobsbók 4

Þá svaraði Elífas frá Teman og mælti:

Munt þú taka því illa, þótt maður dirfist að yrða á þig? Og þó, hver fær orða bundist?

Sjá, þú hefir áminnt marga, og magnþrota hendur hefir þú styrkt.

Þann sem hrasaði, reistu orð þín á fætur, og hnígandi hnén gjörðir þú stöðug.

En nú, þegar það kemur yfir þig, gefst þú upp, þegar það nær þér sjálfum, missir þú móðinn.

Er ekki guðhræðsla þín athvarf þitt og þitt grandvara líferni von þín?

Hugsaðu þig um: Hver er sá, er farist hafi saklaus, og hvar hefir hinum réttvísu verið tortímt?

Að því, er ég hefi séð: Þeir sem plægðu rangindi og sáðu óhamingju, þeir einir hafa uppskorið það.

Fyrir andgusti Guðs fórust þeir, fyrir reiðiblæstri hans urðu þeir að engu.

10 Öskur ljónsins og rödd óargadýrsins, _ tennur ljónshvolpanna eru brotnar sundur.

11 Ljónið ferst, af því að það vantar bráð, og hvolpar ljónynjunnar tvístrast.

12 En til mín laumaðist orð, og eyra mitt nam óminn af því _

13 í heilabrotunum, sem nætursýnirnar valda, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina.

14 Ótti kom yfir mig og hræðsla, svo að öll bein mín nötruðu.

15 Og vindgustur straukst fram hjá andliti mínu, hárin risu á líkama mínum.

16 Þarna stóð það _ útlitið þekkti ég ekki _, einhver mynd fyrir augum mínum, ég heyrði ymjandi rödd:

17 "Er maðurinn réttlátur fyrir Guði, nokkur mannkind hrein fyrir skapara sínum?

18 Sjá, þjónum sínum treystir hann ekki, og hjá englum sínum finnur hann galla,

19 hvað þá hjá þeim, sem búa í leirhúsum, þeim sem eiga rót sína að rekja til moldarinnar, sem marðir eru sundur sem mölur væri.

20 Milli morguns og kvelds eru þeir molaðir sundur, án þess að menn gefi því gaum, tortímast þeir gjörsamlega.

21 Tjaldstaginu er kippt upp, þeir deyja, og það í vanhyggju sinni."

Bréf Páls til Efesusmanna 2:1-10

Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda,

sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.

Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.

En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss,

hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir.

Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum.

Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.

Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.

Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.

10 Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society