Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 50:1-6

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

Fyrri bók konunganna 14:1-18

14 Í þann tíma sýktist Abía, sonur Jeróbóams.

Þá sagði Jeróbóam við konu sína: "Far nú og klæð þig dularbúningi, svo að enginn megi kenna, að þú ert kona Jeróbóams, og far til Síló. Þar er Ahía spámaður, sá er um mig sagði, að ég mundi verða konungur yfir lýð þessum.

Og tak með þér tíu brauð og kökur og krús með hunangi og gakk þú inn til hans. Hann mun segja þér, hvernig fara mun um sveininn."

Kona Jeróbóams gjörði svo, lagði af stað og fór til Síló, og gekk inn í hús Ahía. Ahía mátti ekki sjá, því að augu hans voru stirðnuð af elli.

En Drottinn hafði sagt við Ahía: "Sjá, kona Jeróbóams kemur til þess að leita frétta hjá þér um son sinn, því að hann er sjúkur. Svo og svo skalt þú til hennar mæla." Þegar hún kom og lést vera önnur en hún var,

og Ahía heyrði fótatak hennar, er hún kom að dyrunum, þá sagði hann: "Kom þú inn, kona Jeróbóams! Hvers vegna læst þú vera önnur en þú ert, þar sem ég þó er sendur til þín með hörð tíðindi?

Far þú og seg Jeróbóam: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sakir þess að ég hóf þig upp af alþýðu manna og gjörði þig að höfðingja yfir lýð mínum Ísrael,

og svipti ætt Davíðs konungdóminum og fékk þér hann í hendur, en þú hefir eigi verið sem þjónn minn Davíð, er hélt boðorð mín og var mér hlýðinn af öllu hjarta, svo að hann gjörði það eitt, er rétt var í mínum augum,

heldur hefir þú gjört meira illt en allir þeir, sem á undan þér voru, og hefir farið og gjört þér aðra guði, og það steypt líkneski, til þess að egna mig til reiði, og hefir kastað mér aftur fyrir þig _

10 sakir þessa leiði ég ógæfu yfir hús Jeróbóams og mun uppræta fyrir honum hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. Og ég mun sópa burt húsi Jeróbóams, eins og saur er sópað burt, uns úti er um hann með öllu.

11 Hvern þann er deyr af ættmennum Jeróbóams innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta, því að Drottinn hefir talað það.

12 En statt þú nú upp og far heim til þín. Þegar þú stígur fæti inn í borgina, mun sveinninn deyja.

13 Og allur Ísrael mun harma hann, og menn munu grafa hann, því að hann er sá eini af ætt Jeróbóams, er greftrun mun hljóta, af því að eitthvað hefir það verið í fari hans, er Drottni, Guði Ísraels, geðjaðist að í ætt Jeróbóams.

14 Og Drottinn mun skipa konung yfir Ísrael, er uppræta mun hús Jeróbóams. Þetta er dagurinn, og hvað er nú þegar farið að koma fram?

15 Drottinn mun slá Ísrael, eins og reyrinn riðar í vatninu, og hann mun útrýma Ísrael úr þessu góða landi, er hann gaf feðrum þeirra, og tvístra þeim fyrir austan Efrat, af því að þeir hafa gjört sér asérur og egnt Drottin til reiði.

16 Og hann mun ofurselja Ísrael vegna synda þeirra, er Jeróbóam hefir drýgt og komið Ísrael til að drýgja."

17 Þá stóð kona Jeróbóams upp, hélt af stað og kom til Tirsa, en er hún steig yfir þröskuld hússins, dó sveinninn.

18 Og þeir grófu hann og allur Ísrael harmaði hann, og rættist þannig orð Drottins, er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía spámanns.

Fyrra bréf Páls til Tímót 1:12-20

12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,

13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.

14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.

16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

18 Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu,

19 í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.

20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society