Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.
2 Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.
3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.
4 Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]
5 Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.
6 Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,
7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.
8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?
9 Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?
10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]
11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."
12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,
13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.
14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?
15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.
16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]
17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.
18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.
19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.
20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.
21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.
8 En ég mundi snúa mér til hins Almáttka og bera málefni mitt upp fyrir Guði,
9 honum, sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega, dásemdarverk, sem eigi verða talin,
10 sem gefur regn á jörðina og sendir vatn yfir vellina
11 til þess að hefja hina lítilmótlegu hátt upp, og til þess að hinir sorgbitnu öðlist mikla sælu;
12 honum, sem gjörir að engu áform hinna lævísu, svo að hendur þeirra koma engu varanlegu til leiðar,
13 sem veiðir vitringana í slægð þeirra, svo að ráð hinna slungnu kollsteypast.
14 Á daginn reka þeir sig á myrkur, og sem um nótt þreifa þeir fyrir sér um hádegið.
15 Þannig frelsar hann munaðarleysingjann úr gini þeirra og fátæklinginn undan valdi hins sterka.
16 Þannig er von fyrir hinn vesala, og illskan lokar munni sínum.
17 Sjá, sæll er sá maður, er Guð hirtir, lítilsvirð því eigi ögun hins Almáttka.
18 Því að hann særir, en bindur og um, hann slær, og hendur hans græða.
19 Úr sex nauðum frelsar hann þig, og í hinni sjöundu snertir þig ekkert illt.
20 Í hallærinu frelsar hann þig frá dauða og í orustunni undan valdi sverðsins.
21 Fyrir svipu tungunnar ert þú falinn og þarft ekkert að óttast, er eyðingin kemur.
22 Að eyðing og hungri getur þú hlegið, og villidýrin þarft þú ekki að óttast.
23 Því að þú ert í bandalagi við steina akurlendisins, og dýr merkurinnar eru í sátt við þig.
24 Og þú munt komast að raun um, að tjald þitt er heilt, þú kannar bústað þinn og saknar einskis.
25 Og þú munt komast að raun um, að niðjar þínir eru margir og afsprengi þitt sem gras á jörðu.
26 Í hárri elli munt þú ganga inn í gröfina, eins og kornbundinið er látið í hlöðuna á sínum tíma.
27 Sjá, þetta höfum vér útgrundað, þannig er það. Heyr þú það og set það vel á þig!
8 Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir.
9 Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.
10 Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik.
11 Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.
12 Því að augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit Drottins er gegn þeim, sem illt gjöra.
13 Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er?
14 En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum.
15 En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.
16 En gjörið það með hógværð og virðingu, og hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður.
17 Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa.
18 Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.
by Icelandic Bible Society